Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Qupperneq 67
E r f i d r y k k j a n
TMM 2012 · 4 67
3 Martin, með mynd af hippalegum blómum og dúfu á bakhliðinni. Mig
verkjaði í fingurna af þrá eftir þessum grip, sem ég hafði svo oft mænt á í
hljóðfærabúðinni Spiladósinni við Klapparstíg. Ég þráði að setja hljóma við
öll ljóðin sem ég orti á nóttunni þegar ég gat ekki sofið fyrir öllum spurn-
ingunum sem óskiljanleg tilveran vakti með mér. Ég var ellefu ára.
Ég sagði engum frá hremmingum mínum nema 27. dagbókinni minni.
Ég óttaðist að hlegið yrði að mér, og ég þoldi ekki þegar fólk hló að mér eða
öðrum.
En svo vildi svo til dag einn að ég heyrði mömmu Signýju og ömmu ljúfu
ræða um aldraðan mann, Tómas Tómasson, og hina viðburðaríku ævi hans,
um eiginkonu hans, Agnesi Kierkegård, og æskuvinkonu þeirra beggja,
Nönnu Geirlaugsdóttur, sem bjó með þeim í litla, græna húsinu við Hörgs-
hlíð. Ég lá á hleri bak við eldavélina (ilmandi bananabrauð í ofninum) og
mamma Signý og amma ljúfa sátu við eldhúsborðið. Þetta var í júní.
„… og svo segja sumir að þau myndi ástarþríhyrning,“ sagði amma ljúfa.
„Að þau myndu gifta sig öll þrjú ef samfélagið leyfði.“
„Er hann ekki listmálari?“
„Ojú. Og ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður. Þegar þau bjuggu í
Kaliforníu voru dísirnar tvær helstu fyrirsæturnar hans. Alls staðar var
eftirspurn eftir skandinavískum, ljóshærðum fegurðardísum.“
„Viltu randalín?“
„Bara flís, takk. Tómas gerði meira að segja bíómynd þar, Á engi tilfinn-
inganna, árið 1977. Sagan segir að Dustin Hoffman hafi átt að fara með aðal-
hlutverkið, en Tómasi hafi tekist að móðga hann svo hressilega með sinni
alkunnu hreinskilni að Dustin hafi rokið burt í fússi og þvertekið fyrir að
stíga aftur fæti á tökustað, þrátt fyrir að hann væri samningsbundinn.“
„Ja, hérna hér,“ sagði mamma Signý. Amma ljúfa saup samþykkjandi á
kaffinu, bætti svo út í sykurmolum – ég heyrði sjö gutlhljóð.
„Engu að síður var myndin gerð, en kvikmyndaverið réð á síðustu stundu
nýjan klippara til að vinna lokaútgáfu hennar. Skrumskæla hana, að mati
Tómasar. Miðasala svaraði ekki einu sinni kostnaði. Tómas og gyðjurnar tvær
fluttust frá Hollywood til Parísar, þaðan til Prag, loks aftur til Reykjavíkur,
auralaus og niðurbeygð. Hann fór á sjóinn, þær skáru út ýmis listaverk úr tré
og sátu fyrir hvar sem þær gátu, svona rétt skrimtu þau. Ég rakst stundum á
þau á Hressó, heilsaði þeim, en þekkti þau í raun ekki neitt.“
„Meiri bóhemlifnaðurinn á sumu fólki.“
„Já, ertu ekki sammála því, Steinar minn?“
Stundum var eins og amma ljúfa sæi gegnum holt og hæðir, ísskápa og
eldavélar. Ég vissi reyndar að sumir Reykvíkingar héldu því fram að hún
væri brögðótt álfkona og því vissara að hafa hana góða.
Ég skreið kindarlegur út úr fylgsni mínu.
„Jú, mér finnst þetta hljóma eins og ævintýralegt lífshlaup, amma mín,“
sagði ég og fékk líka kaffi með sjö sykurmolum.