Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Qupperneq 69
E r f i d r y k k j a n
TMM 2012 · 4 69
„Því að yfirleitt hverfur óttinn þegar maður tekur að kanna hlutina með
opnum huga.“
Ég saup hægt á kaffinu til heiðurs öllum þeim sem hafa mátt þola ofsóknir
og skilningsleysi í aldanna rás. „Þegar ég verð stór ætla ég að vera fullur
skilnings á hvers kyns kúnstugheitum og tiktúrum annarra manna, amma
mín,“ sagði ég.
***
Síðan var það einn morguninn, þegar ég kom að hliði græna hússins, að ég
skynjaði strax að eitthvað var ekki sem vera skyldi. Ég lagði frá mér blað-
burðarpokann, braut saman Moggann og hljóp sem fætur toguðu inn um
hliðið.
En ég vissi að nú þyrfti ég ekki lengur að hafa hraðan á.
Samt skaut ég blaðinu inn um lúguna stífu og stökk síðan aftur niður
tröppurnar. Á meðan ég braust til baka gegnum illgresið heyrði ég að hann
hafði loksins rumskað. Hann reyndi að hlaupa á eftir mér, en skrefin voru
þunglamaleg og máttlaus.
Með trega í brjósti lokaði ég hliðinu á eftir mér. Ég hlustaði á blúsaðan
söng þrastanna. Ég sá sólskinsgeislana stinga döggvott grasið. Og ég fylgdist
með loðnum búknum hverfa aftur inn í kofann sinn, sem sást varla fyrir
njóla og órækt.
***
Sama dag rölti ég heim af fótboltaæfingu og japlaði þungt hugsi á hundasúru.
Að venju lá leið mín fram hjá græna húsinu. Sólskinið lék sér enn á þakufs-
unum, stakk sér þaðan niður í runnana og limgerðið. Samt skynjaði ég að
garðurinn var fullur af sorg.
Ég sá gneypan mann sitja á tröppunum, stara fram fyrir sig. Hann var
baðaður sólarljósinu. Þó að hann virkaði alls ekki gamall sá ég að hann
var gamall. Hann var látlaust klæddur, í rauðköflótta skyrtu og ljósbláar
gallabuxur, en á kollinum dökkgrænt kaskeitispottlok sem undan stóðu
nokkur hvít hárstrý. Hann bar hvorki með sér að vera mikilmenni né
lítilmagni, öðrum æðri eða undir aðra settur. Einhvern veginn fannst mér
eins og sál hans smellpassaði í þetta hylki sem var líkami hans og allt væri í
fullkomnu jafnvægi. En ég sá líka að hann var raunamæddur.
Ég lauk upp hliðinu og gekk inn í garðinn, hægum, varfærnislegum
skrefum.
Hann leit upp, mildilegur til augnanna. „Komdu sæll, ungi maður.“
„Hæbbs.“
Ég settist hjá honum á tröppuna.
„Mér þykir þetta leitt,“ sagði ég.