Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Síða 76
76 TMM 2012 · 4
Ástráður Eysteinsson
Til móts við lífsreynsluna
Skyggnst í nýjustu ljóðabækur Matthíasar
Johannessen og Þorsteins frá Hamri
„Ég og þú / vorum jörðin í svefni“ – kannski eru það orð felld saman með
þessum hætti sem hafa leitt til þess að ég hef haldið áfram að blaða til skiptis
í nýjustu ljóðabókum þeirra Þorsteins frá Hamri og Matthíasar Johannessen
síðan þær komu út á síðasta ári. Þessi orð gætu verið af síðum bókar
Matthíasar, Söknuður, en koma reyndar úr bók Þorsteins, Allt kom það nær.
Vissulega má segja að ekki þurfi að lesa nema fáein orð í viðbót til að sjá skýr
merki um stíl Þorsteins, og að hið sama eigi við um handbragð Matthíasar í
erindi sem hefst svo: „Ung og undrandi / áttum við þessa jörð“.1
Skáldin Matthías og Þorsteinn hafa átt samleið um áratugaskeið, æ síðan
fyrstu bækur þeirra birtust árið 1958. Þorsteinn stóð þá á tvítugu og sendi
frá sér bókina Í svörtum kufli en Matthías skorti tvo í þrítugt þegar Borgin
hló kom út. Þeir hafa verið að síðan, ljóðabækur hvors um sig fylla um tvo
tugi og hafa þeir þó einnig margt annað iðjað um dagana. Sumum kann að
finnast undarlegt að nota „samleið“ um þessi tvö skáld, ekki síst ef menn
bregða upp gleraugum kaldastríðsáranna og benda á að Matthías hafi verið
ritstjóri Morgunblaðsins og skáld hinna borgaralegu afla en Þorsteinn hins-
vegar meðal höfuðskálda sem íslenskir vinstrimenn gátu hampað. Því fer
samt fjarri að ljóðlínur þeirra raði sér í afmarkaða hugmyndafræðilega bása.
Og þótt þeir komi úr ólíkum heimahögum, annar borinn og barnfæddur
Reykvíkingur, hinn sveitastrákur úr Borgarfirðinum, þá eiga þeir um margt
sama arfinn í sínum skáldkistlum. Báðir hafa sýnt þeim arfi trúnað en tekið
til hans sjálfstæða afstöðu, hvor á sinn hátt.
En mætti ekki benda á ýmsar ljóðlínur til vitnis um annan meginmun
á þessum skáldum: ljóð Þorsteins séu öguð, meitluð og knöpp en Matthías
sé margorður, skáld flæðis og funa? Eitthvað í þessa veru heyrist stundum
sagt og þó að það megi til sanns vegar færa segir það ekki alla söguna og
getur jafnvel torveldað okkur sýn á það margbrotna höfundarverk sem bæði
þessi skáld hafa fært lesendum sínum og tungumálinu. Sá sem leggur sig
eftir ljóðum Þorsteins skynjar fljótt hitann en einnig leitina í tilfinningalífi
yrkjandans. Ég opna Lifandi manna land frá árinu 1962 og les um götuna
„á viðsjárverðum tímum“; milljónir bifreiða streyma hjá, „óvissan / er betri
en ævilöng bið“ og því virðist tekið stökk „upp í opið sæti / burt – að nema