Hugur - 01.01.2015, Síða 81
Hugur | 27. ár, 2015 | s. 81–105
Mikael M. Karlsson
Efi, skynsemi og kartesísk
endurhæfing
Einn veigamesti þátturinn í öllum rannsóknum á heimspeki Descartesar lýtur
að aðferðinni sem hann beitir í Hugleiðingunum og skyldum verkum. Í þessari
ritgerð rökstyð ég svolítið annan skilning á þessari aðferð en hefur mér vitanlega
verið settur fram annars staðar.1 Einkum legg ég áherslu á að aðferðin sé hugsuð
sem rökræðubundin endurhæfing, ætluð bæði til þess að eyða „fordómum“ (vana-
bundinni umgengni við líkamlega hluti sem veikir skynsemi mannsins) og til þess
að bæta skynsemina sem hefur veikst með þessu móti.2
Í megindráttum er túlkun mín á hinni kartesísku aðferð í samræmi við túlkun
Harrys Frankfurt.3 En okkur Frankfurt greinir á um tvö mikilvæg atriði. Í fyrsta
lagi telur Frankfurt (og flestir aðrir túlkendur) að kartesísk aðferð feli í sér víðtæk-
an efa fyrirfram, það er að segja á undan uppgötvun röksemda sem renna stoðum
undir slíkan efa. Ég held því fram, andstætt Frankfurt, að ef slíkur fyrirfram-efi
væri raunverulega hluti aðferðarinnar, myndi Descartes lenda í óyfirstíganlegum
erfiðleikum. En að mínum dómi sýna skrif Descartesar ekki afdráttarlaust að
hann hafi ætlað sér að beita fyrirfram-efa (hinu gagnstæða mætti halda fram) og
þegar lögð er áhersla á endurhæfingareðli aðferðar hans virðist ólíklegt að hann
hafi gert það.
Hitt atriðið, þar sem mig greinir á við Frankfurt, tekur til efans um skynsem-
ina í Hugleiðingunum. Frankfurt telur að Descartes fari leið fyrirfram-efa og vill
jafnframt sýna fram á að aðferð Descartesar sé trúverðug og sjálfri sér samkvæm.
Þess vegna heldur hann því fram að skynsemisgáfan sé undanskilin fyrirfram-efa
og um hana sé raunar ekki efast, jafnvel ekki í ljósi efahyggjuröksemda Fyrstu og
Annarrar hugleiðingar. Frankfurt reynir að sýna fram á að með því að undanskilja
skynsemina þannig frá fyrirfram-efa sé hann ekki að skjóta sér undan vandanum
1 [Þessi ritgerð birtist upphaflega á ensku í ritsafninu Descartes: Critical and Interpretive Essays,
ritstj. Michael Hooker (Baltimore & London: Johns Hopkins University Press, 1978). Þær neðan-
málsgreinar sem standa innan hornklofa eru nýjar frá höfundi eða þýðanda; hinar eru þýðingar á
neðanmálsgreinum höfundar frá 1978, stundum með örlitlum breytingum.]
2 Skírskotunin til Spinoza er ekki tilviljun.
3 Harry Frankfurt, Demons, Dreamers, and Madmen (Indianapolis, 1970).
Hugur 2015-5.indd 81 5/10/2016 6:45:15 AM