Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 107
Hugur | 28. ár, 2016–17 | s. 107–122
Sigrún Inga Hrólfsdóttir
Raunveruleikinn er ævintýri og
listin er aðferð til þess að henda
reiður á honum
Í þessari grein er fjallað um nýlega kenningu á sviði heimspeki og fagurfræði sem
nefnist hlutmiðuð verufræði (e. object-oriented ontology).1 Kenning þessi felur í
sér að allt sé hlutur og upphafsmenn hennar færa rök fyrir því að orsakasamhengi
eigi sér stað í vídd skynjunar og líta svo á að fagurfræði sé frumspeki. Graham
Harman, sá sem fyrstur setti fram hugtakið um hlutmiðaða verufræði, telur að
eitt helsta vandamál frumspekinnar hafi verið að skýra hvernig efni, eða aðskildir
hlutir, geti haft samskipti við hvorn annan. Harman talar um frumspeki á þann
veg að hlutir eigi í innbyrðis sambandi sín á milli og að á milli þeirra ríki frum-
spekileg aðlöðun (e. metaphysical allure).
Til þess að gera grein fyrir þessari hugsun, mun reynast fróðlegt að hverfa aftur
til Forn-Grikkja og skoða einnig þær hugmyndir nýaldar sem hlutmiðaðir veru-
fræðingar gagnrýna, í ljósi þeirrar þekkingar sem þeir sækja bæði til vísinda og
lista. Því er í þessari grein rifjuð upp í örstuttu máli frumspeki Aristótelesar, fjallað
um aðgreiningu hlutveru og hugveru í heimspeki Descartes og raunhyggju Dav-
ids Hume, kenningar Kants um hlutinn-í-sjálfum-sér og Kópernikusarbyltingu
hans, skammtafræði í ljósi uppgötvana Níelsar Bohr og annarra vísindamanna og
þann raunveruleika sem birtist okkur í óhlutbundinni list frá upphafi 20. aldar.
En á rannsóknum þessara ólíku greina, skammtafræði og myndlistar, byggja hlut-
miðaðir verufræðingar þá skoðun sína að frumspeki sé fagurfræði.
1 Bandaríski heimspekingurinn Graham Harman setti fyrst fram hugtakið object-oriented
philosophy í samnefndri grein árið 1999. (Greinina er að finna í bókinni Towards Speculative Real-
ism, Essays and Lectures, Winchester, Zero Books, 2010, s. 93–105). Hugmyndir hans má flokka
sem forskilvitlega raunhyggju (e. transcendental empiricism), sem ef til vill má lesa sem umorðun
á hugtakinu um kennilegt raunsæi (e. speculative realism). Nú er kenningin yfirleitt kölluð object-
oriented ontology (OOO) sem hér er íslenskað af greinarhöfundi sem hlutmiðuð verufræði.
Hugur 2017-6.indd 107 8/8/2017 5:53:40 PM