Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 59
Hugsun hneppt í kerfi 59
innar“, svo notað sé orðalag Habermas. „Til að greina hvernig merking verður til
þurfum við að skilja þessa viðleitni til að hug-taka hið Eina“, skrifar hann þar.42 Í
fyrstu bók sinni fjallaði hann hins vegar um merkingarmyndun í anda fyrirbæra-
fræði Husserls þar sem leitast er við að skilja fyrirbærin út frá merkingargjöf vit-
undarinnar án þess að útskýra hana í ljósi kenninga. Þar lagði Páll megináherslu
á það hvernig bæði heimspeki og vísindi nærast á þeirri merkingu sem mótast í
hversdagsheiminum.43 Sá vefur merkingar sem spunninn er í félagslegu samlífi
manna er undirstaða þeirra kenninga sem settar eru fram í vísindum og fræð-
um en þær kljúfa sig gjarna frá þessum merkingarveruleika og tengslin við hann
glatast í firrtri sérfræðimenningu.44 „Heimurinn eins og við kynnumst honum í
upprunalegri reynslu verður ósannur“, eins og Páll orðar það.45
Andspænis þessum vanda býður Habermas upp á „þýðingarþjónustu“ heim-
spekinnar sem hefur þá sérstöðu að gangast við tengslum sínum við hversdags-
heiminn en lúta jafnframt fræðilegum gagnrýniskröfum. Þannig er „heilbrigð
skynsemi“ látlaus uppspretta heimspekilegrar hugsunar sem með gagnrýninni
greiningu sinni er um leið algjör andstæða hennar.46 Habermas var gagnrýninn á
fyrirbærafræði Husserls, sem byggir á heimspeki vitundarinnar, en leitar fremur
til kennismiða sem leggja áherslu á tilurð merkingar í félagslegum athöfnum og
hversdagslegum boðskiptum.47 Habermas leggur á það áherslu að lífsheimurinn
er veruleiki merkingar og gilda sem er í bakgrunni allra samskipta okkar og veita
þeim viðmið sem við göngum leynt og ljóst út frá. Þetta er forsenda „trúnaðar-
tengsla“ okkar við heiminn sem Páll gerði stundum að umtalsefni.48
Afstaða Páls til lífsheimsins er almennt í samræmi við það sem Paul Ricoeur
nefndi „túlkunarfræði merkingartrúar“ og einkennist af því að við leggjum okkur
eftir þeirri merkingu sem býr í heiminum eða túlkunarviðfangsefnum. Habermas
hafnar því ekki en leggur í anda „tortrygginnar túlkunarfræði“49 áherslu á að merk-
ingarvefur lífsheimsins er alltaf samofinn hugmyndum og öflum sem skrumskæla
skilning okkar.50 Páll andmælir því ekki en tekur vara við þeirri tilhneigingu „að
tortryggja hversdagslegt mál og skilning, allar viðteknar skoðanir og hefðbundinn
hugsunarhátt“.51 Það er meginatriði í samræðusiðfræði Haber mas að gagnrýnin
42 Páll Skúlason 2015: 15.
43 Páll Skúlason 1993: 79-104.
44 Hér eru greinileg áhrif Husserls í Die Krisis der europäischen Wissenschaften und die Transzendentale
Phänomenologie. Husserl 1954/1970.
45 Páll Skúlason 1993: 99.
46 Habermas 1992: 38.
47 Habermas fjallar um lífsheiminn út frá félagsfræði athafna og boðskipta í anda Meads og banda-
rískra pragmatista. Hann bendir á að Alfred Schutz hafi losað sig að nokkru undan vitundarheim-
speki Husserls með greiningu sinni á samhuglægri (e. intersubjectively) mótun lífsheimsins undir
áhrifum athafnakenningar Meads. Sjá t.d. Habermas 1987: 126‒140.
48 Sjá t.d. Páll Skúlason 2014: 13–25. Hér talar Páll um þörf hugans fyrir „að geta numið veruleikann
sem sjálfstæða heild […] sem sé til óháð huganum sjálfum“ og heldur því fram að þetta sé hið
upprunalega „samband við veruleikann sem náttúrulega heild“. Sama rit: 22.
49 Sjá, um þennan greinarmun á tvenns konar túlkunarfræði, Paul Ricoeur 1970: einkum bls. 28‒36.
50 Sjá t.d. Habermas 1977: 335–363.
51 Páll Skúlason 1981: 198. Eins og þessi prýðilega yfirlitsgrein um túlkunarfræði ber með sér, þá sýn-
ir Páll góðan skilning á báðum þessum áherslum í túlkun, en rík áhrif Gadamers, höfuðtalsmanns
„túlkunarfræði merkingartrúar“ leyna sér ekki.
Hugur 2017-6.indd 59 8/8/2017 5:53:26 PM