Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 84
84 Luce Irigaray
form hennar, endurnýjun ímynda sem hafa einskorðast við hið rótgróna
skiptilíkan hins fallíska hagkerfis þar sem konan er undirskipuð karlinum.
Á grundvelli skynvísi og reynslu grefur Luce Irigaray upp kvenlega kyn-
og sjálfsveru og leysir hana í einni svipan undan oki hins karllæga. Hún
skapar rými fyrir (ó)mögulegar og margfaldar raddir kvenleikans sem eru
án takmarka, raddir sem skynja handan orðanna, rannsaka, afhjúpa, finna til
og uppgötva hið upprunalega og óendanlega um leið og þær svipta hulunni
af dauðu, blóðlausu skinni orðanna, leyndardómnum sjálfum. Varirnar eru
jafnframt táknrænar fyrir a.m.k. tvær hliðar sjálfsveruleikans sem liggur til
grundvallar mannskilningi Luce Irigaray og hugmyndum hennar um kynja-
mismun. Tvenndin er þegar til staðar í kvenlíkamanum, önnur er alltaf þegar
í hinni, í stöðugri hreyfingu hér og nú, alltaf eru þær tvær án þess að vera
eins. Sjálfsveruleikanum vindur þannig fram í dýnamískum tengslum við
„hinn“, sem er hið óræða og dularfulla í sjálfu sér. Órjúfanleg tengsl varanna
einkennast af kærleiksríku sambandi tveggja án stigveldis, fordóma og úti-
lokunar. „Við lifum tvær saman handan hillinga, ímynda. Spegla. Okkar á
milli er önnur ekki hin „sanna“ og hin eftirmynd hennar, önnur frummynd
og hin spegilmynd hennar.“ (91) Með því að herma skapabarmana upp á goð-
sögnina um skort og vansköpun sem um aldir hafa verið tileinkuð konunni,
gengisfellir Luce Irigaray kenningar sálgreiningar og vestrænnar heimspeki
um kvenkynið sem hið afleidda kyn. Hún skapar nýja mögulega ímynd um
sjálfsveruleika konunnar. Eftirhermunaraðferð hennar er í senn gagnrýnin og
skapandi túlkunaraðferð sem miðar að því að lýsa upp kvenkynið og afbyggja
staðlaðar ímyndir í því skyni að skapa lárétt samband kynjamismunar á jafn-
réttisgrundvelli.
Þegar varir okkar tala saman1
Ef við höldum áfram að tala sama tungumálið hvert við annað, endurtökum við
sömu söguna. Byrjum sömu sögurnar upp á nýtt. Finnurðu það ekki? Hlustaðu:
allt í kringum okkur, karlar og konur, sagt er að það sé allt með sama svip. Sömu
umræður, sömu þrætur, sömu uppákomur. Sama aðlöðun og sömu aðskilnaðir.
Sömu vandamál, ógerlegt að ná saman. Sömu ... Sama ... Alltaf það sama.
Ef við höldum áfram að segja það sama,2 ef við tölum hver við aðra eins og
karlar hafa talað saman gegnum aldirnar, eins og okkur var kennt að tala, munum
við farast á mis. Enn og aftur ... Orð munu berast gegnum líkama okkar, yfir
höfuð okkar, og týnast, týna okkur. Víðs fjarri. Hátt uppi. Fjarlægar okkur sjálfum:
talaðar vélar, talandi vélar. Hreint hörund, hörund við hæfi,3 umlykur okkur, en
1 Textinn er þýddur eftir enskri þýðingu Carol Burke, „When Our Lips Speak Together“. Hliðsjón
var höfð af franska frumtextanum „Quand nos lèvres se parlent“ við yfirlestur. – Þýð.
2 „Það sama“, þ.e. einsleiki skírskotar til gagnrýni Irigaray á vestrænan merkingarveruleika, ein-
kynjaða orðræðu sem einkennist af karllægri hugsun, einsleika og hlutlægum sannleika. – Þýð.
3 Tvær skilgreiningar á franska orðinu propre – „hreint“ og „við hæfi“ gefa til kynna að merkingar
kvenna eru útilokaðar í merkingarkerfi feðraveldisins.
Hugur 2017-6.indd 84 8/8/2017 5:53:33 PM