Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 70
70 Tryggvi Örn Úlfsson
Mikilvægi merkingarheimsins birtist ekki hvað síst í því að í augum Páls snýst öll
sannkölluð heimspeki um hann. Í viðtali við Björn Þorsteinsson, sem er birt í við-
auka Merkingar og tilgangs, segir hann þannig að á meðan náttúran sé hinn sanni
heimur frá sjónarhóli náttúrunnar og undirstaða hinna heimanna og að frá sjón-
arhóli hugans sé það hugarheimurinn sem komi fyrst, þá sé merkingarheimurinn
hinn sanni heimur frá sjónarhóli heimspekinnar.9
Þessa sérstöðu merkingarheimsins má skilja með því að leiða hugann að þeirri
hugmynd Páls að það sé í rauninni merkingarheimurinn sem tengi hina tvo
heimana saman. Náttúruheimurinn og hugarheimurinn eru aðeins heimar í krafti
merkingar sinnar. Eins og áður segir skilur Páll merkingu sem afmarkaða hluti
sem vísa hver til annars, þ.e. það sem hann kallar „tilvísunarkerfi“. En þetta er
einmitt líka það sem gerir heima að heimum. Heimur er aðeins heimur ef innan
hans birtast afmarkaðir hlutir sem hafa einhver tengsl sín á milli. Þannig má vel
skilja að frá sjónarhóli heimspekingsins komi merkingarheimurinn fyrst og sé
hinn sanni heimur. Hann er þessi sanni heimur vegna þess að hann tengir saman
hina heimana tvo, gefur þeim merkingu og gerir þá þannig að heimum.
Þetta er önnur ástæðan fyrir þeim mikilvæga sess sem merkingarheimurinn
skipar innan kerfis Páls. Hin ástæðan er mikilvægi merkingarinnar fyrir þær verur
sem við erum. Á einum stað í Merkingu og tilgangi segir Páll:
Eitt skiptir hvað mestu til skilnings á sjálfum okkur og um leið á því
hvernig við mótum gildismat okkar og setjum okkur markmið, sjáum til-
gang í lífinu og mótum lífshætti okkar. Það er sú staðreynd að það skiptir
óendanlega miklu máli að hafa hlutverk, vera kallaður til ákveðinna verka,
vera hugsanlega eins og ómissandi við ákveðnar aðstæður.10
Þetta hlutverk sem við höfum og skiptir svo óendanlega miklu máli fyrir okk-
ur er ekkert annað en staður okkar innan merkingarheimsins. Hlutverk okkar
er afmörkun okkar innan merkingarheimsins í sambandi sínu við og tilvísun til
annarra hlutverka sem aðrir hafa. Þannig er maður til dæmis faðir í afmörkun
frá og tilvísun til móður og barna. Fjölskyldan sem gefur lífi föðurins þannig
merkingu hefur líka sitt eigið hlutverk innan þess samfélags sem hún tilheyrir
og samfélagið sjálft hefur sitt hlutverk, sem verður til í tengslum þess við önnur
samfélög og náttúruna sjálfa. Og þar sem þessi hlutverk velta ekki eingöngu á
þeim sem gegna þeim, heldur einnig á þeim tilvísunarkerfum sem þau eru hluti
af – fjölskyldu, samfélagi, náttúru, o.s.frv. – finnur Páll hér rök gegn hvers konar
róttækri sjálfsveruhyggju – og sjálfdæmishyggju – þar sem sjálfsveran er frjáls til
að gefa lífi sínu þá merkingu sem henni sýnist. Hér er t.d. að finna rætur ágrein-
ings Páls við Jean-Paul Sartre.
Hvort tveggja þessara raka – að merkingarheimurinn tengi saman hina tvo
heimana og að merkingin sé óendanlega mikilvæg fyrir þær verur sem við erum
– eru innblásin af heimspeki Hegels. Hvað fyrri rökin varðar talar Páll sjálfur um
9 Páll Skúlason 2015: 160.
10 Páll Skúlason 2015: 95.
Hugur 2017-6.indd 70 8/8/2017 5:53:28 PM