Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 108
108 Sigrún Inga Hrólfsdóttir
Frumspeki
Innan heimspekinnar eru kenningar um það sem er til, í hinum dýpsta og sann-
asta skilningi, kallaðar frumspeki eða hin fyrsta speki,2 rétt einsog Aristóteles
kallaði þau fræði sem fjölluðu um frumorsakir þess sem er, fyrstu heimspeki eða
πρώτη φιλοσοφία. Samkvæmt Aristótelesi teljast efni, form, uppspretta hreyf-
ingar (eða aflvaki) og tilgangur, til frumorsaka.3 Hlutmiðaðir verufræðingar vilja
endurvekja kennilega frumspeki (e. speculative metaphysics)4 og taka hugmyndir
Aristótelesar aftur til skoðunar að því leyti að þeir freista þess að fjalla um og
skilja hver aflvakinn sé og nýta til þess hugmyndir um efni og form þess eða
birtingarmyndir.
Í upphafi bókarinnar um frumspekina segir Aristóteles að þekkingarþrá sé öll-
um mönnum í blóð borin og það sé til marks um þessa þrá að við unnum skiln-
ingarvitum okkar, „við unnum þeim þeirra sjálfra vegna, óháð allri nytsemi, og
einkum sjóninni“.5 Aristóteles gerir í framhaldinu grein fyrir þeim hugtökum
og skilgreiningum sem hann byggir á, því „hann vill henda reiður á viðfangsefn-
inu með því að útskýra orðin sem við beitum til að tala um það“.6 En orð megna
þó ekki að skilgreina allt sem er, og við skynjum heiminn áður en við getum gert
grein fyrir honum með rökrænum hætti.
Máli sínu til stuðnings vísa heimspekingarnir sem aðhyllast hlutmiðaða
verufræði meðal annars til skammtafræði og forvitnilegra uppgötvana á því sviði,
en einnig til listsköpunar. Timothy Morton, einn af hinum hlutmiðuðu veru-
fræðingum telur að myndlist sé rannsókn á orsakasamhengi og að hlutmiðaðir
verufræðingar sjái samhljóm með hinni mótsagnakenndu hegðun smæstu ein-
inga alheimsins og þeirri aðferðafræði listarinnar að skoða hlutina í samhengi
sínu á forsendum fagurfræði og skynjunar, og að rannsaka þá rétt einsog vísindin,
en búa þar fyrir utan yfir frelsi til ákveðinnar órökvísi, ef svo mætti segja. Rökvísi
sem er á sviði skynjunar eða öllu heldur skynvísi sem er óstaðbundin, ótímasett,
óefniskennd og skapandi. Öreindir virðast eiga í samskiptum á þessum forsend-
um, en þær skynja hver aðra og mæla út og túlka á fagurfræðilegan hátt. Milli
þeirra ríkir frumspekileg aðlöðun. Því vilja hlutmiðaðir verufræðingar meina að
hlutir skynji hver annan og eigi í samskiptum á þeim grunni og þannig eigi ævin-
týrið sér stað – orsakasamhengi hlutanna. Þessi virkni samskipta á sviði skynjunar
á sér stað út í gegnum alla veruna, frá öreindum til sólkerfa og hvarvetna þar á
milli. Þess vegna er hin fyrsta speki, eða frumspeki, fagurfræði.
2 Frumspeki er íslenska orðið yfir hugtakið metaphysics, sem vísar til þess að þegar rit Aristótelesar
voru gefin út á fyrstu öld fyrir Krist, var ritunum um frumspeki gefinn titillinn ta meta ta physika
sem þýðir beinlínis „bækurnar á eftir eðlisfræðinni“. Aristóteles nefndi þó þessi fræði sjálfur „hina
fyrstu speki“ (gr. he prote filosofia) og þaðan er íslenska orðið frumspeki fengið.
3 Svavar Hrafn Svavarsson 1999.
4 Bruno Latour og Graham Harman, nóta á innsíðu bókarinnar Realist Magic, Objects, Ontology,
Causality, Timothy Morton 2013: 2.
5 Aristóteles 1999.
6 Sama rit: 23.
Hugur 2017-6.indd 108 8/8/2017 5:53:41 PM