Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 96
96 Sigríður Þorgeirsdóttir
gerði kristin trú „þessa sterku andúð á líkamanum“ (líkama í víðum erótískum,
skynrænum skilningi) „nær alfarið að sinni“.18
Verki Bóethíusar er samkvæmt flestum túlkunum lýst sem svo að það sé að
mestu undir merkjum hinnar skörpu sundurgreiningar líkama og sálar. Þess
vegna birtist Heimspeki í slíkum túlkunum sem upphafnari og kynlausari en
ástæða er til. Þegar dýpra er kafað í merkingarlög textans og við opnum augu
okkar fyrir fornri merkingu sophia sem skynrænnar og hagnýtrar visku, þá birtist
Heimspeki sem mun margræðari vera en flestar túlkanir á henni gefa til kynna.
Sú viska sem Heimspeki stendur fyrir er viturleg dómgreind sem byggir í senn á
skynsemi og tilfinningum. Til þess að draga þessar hliðar hennar fram í dagsljósið
þarf að greina líkamleika og kynjamismun í mynd Heimspeki. Heimspeki sýnir
okkur að mannveran er líkami og sál, vitsmunir og tilfinningar. Með því að gefa
gaum að þessum þáttum má varpa nýju ljósi á þá hugmynd um heimspekiiðkun
sem Heimspeki og Bóethíus setja á svið fyrir okkur.
Stað-leysi konunnar í heimspeki
Í inngangi V.E. Watts að minni útgáfu Huggunar heimspekinnar er Heimspeki
gerð óljós og óskýr. „Allur [texti Bóethíusar]“, skrifar Watts, „er settur á svið sem
ákveðin gerð samræðu, hinnar heilögu samræðu, þar sem höfundurinn lýsir því
hvernig einhver guðlegur andi eða máttur, í fyrstu honum óþekktur, birtist honum
og opinberar honum einhvern hluta hulinnar visku.“19 Skáletranirnar eru mínar
og til þess gerðar að draga athygli að því hvernig Watts gerir Heimspeki ósýni-
legri með því að vísa til hennar sem „einhvers“ anda sem opinberar „einhvern“
hluta visku. Heimspeki verður síður merkjanleg í þessari lýsingu hans. Svona óljós
mynd af Heimspeki er dæmi um stað-leysi konunnar í vestrænni heimspeki sem
Luce Irigaray hefur fjallað um í túlkunum sínum á kanónískum textum heim-
spekisögunnar.20 Kynjamismunur sem grundvallaraðgreining í hefð okkar hefur
fyrirmunað blómstrun þess sem Irigaray kallar kvenlega sjálfsverustöðu.21 Konan
sem birtist í textanum er ekki tjáning á sjálfri sér, sem sín eigin rödd.
Hugmynd Irigaray um stað-leysi konunnar er ný í femínískri heimspeki síðustu
áratuga. Samkvæmt heimspeki Simone de Beauvoir um Hitt kynið þá hafa konur
verið settar í stöðu hins kynsins eða annars kyns sem er síðra hinu fyrsta kyni sem
er karlkynið.22 Konur hafa verið skilgreindar neikvætt gegnum heimspekisöguna.
Gagnrýni Beauvoir beinist því að heimspeki Aristótelesar um konur sem kyn
sem skorti eiginleika karlkyns sem yfirburðakyns, en sú kenning lagði hvað helst
grunn að kvenfyrirlitningarhefð innan heimspekinnar. Hugmynd Beauvoir um
stöðu kvenna í heimspekihefðinni hefur verið viðtekin í femínískri heimspeki.
Irigaray heldur því aftur á móti fram að konur í vestrænni heimspeki hafi ekki
18 Sama rit: 163.
19 Boethius 1982: 19.
20 Sjá Sigríður Þorgeirsdóttir 2009.
21 Sjá Irigaray 1985 og Irigaray 1993.
22 Beauvoir 2009.
Hugur 2017-6.indd 96 8/8/2017 5:53:37 PM