Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 69
Merking og tilgangur heimspekikerfa 69
grundvallar því sem okkur birtist í reynslunni, heldur líka sem sjálfsveru, þ.e. sem
leið hinnar fávísu og einhliða vitundar til upplýsingar þar sem sannleikurinn, svo
að segja, hugsar sjálfan sig.
Ef við drögum þetta saman, má lýsa kerfi Hegels í gegnum fjögur meginein-
kenni þess. 1. Hvers kyns fyrirbæri öðlast eingöngu merkingu í einingu sinni
við andstæður sínar. 2. Þetta á líka við um andstæðupör, þ.e. einingu fyrirbæris
og andstæðu þess, sem mynda einingu við andstæðu sína. Takist heimspekinni
að fanga kerfi þessara andstæðna hefur henni þar með einnig tekist að fanga
sannleikann, því „hið sanna er heildin“. 3. Lögmálið um einingu andstæðnanna
gildir einnig um andstæðuparið „það sem ætti að vera“/„það sem er“ og fyrir vik-
ið getum við ekki stillt hugsjónum upp andspænis veruleikanum, heldur verður
hvort að verka á hitt. 4. Lögmálið gildir loks um sannleikann sem ekki er hægt
að einangra frá fáfræðinni. Því verður sannkölluð heimspeki að gera grein fyrir
lífi sannleikans í samspili sínu við hugann og allar hans villur. Í hnotskurn má þá
segja að merkingu kerfis Hegels sé að finna annars vegar í einingu þess við kerfi
Kants og hins vegar í andstöðu kerfanna tveggja. Annars vegar tekur Hegel upp
þráðinn þar sem Kant skildi við hann og heldur áfram að sætta ólíka þætti menn-
ingar og veruleika. Hins vegar snýst Hegel gegn Kant sem leitaðist við að halda
ákveðnum hliðum veruleikans aðskildum, svo sem heimi vísindanna og heimi
hinnar frjálsu siðferðisveru eða raunheimi og heimi hugsjóna.
Núna er kominn tími til að snúa sér að kerfi Páls. Í hvaða skilningi er þetta kerfi
í anda Hegels?
Það er líklega óhætt að segja að kjarninn í kerfi Páls sé hin svokallaða „þriggja
heima kenning“. Á fyrstu síðum fyrsta kafla Merkingar og tilgangs setur hann
þessa kenningu fram:
Tilgáta mín er sú að það megi réttilega flokka öll hugsanleg umhugsun-
ar- eða áhyggjuefni í þrennt. Í fyrsta lagi efni sem lúta að okkur sjálfum, í
öðru lagi efni sem lúta að umhverfi okkar eða náttúrunni og í þriðja lagi
efni sem lúta að því sem við getum hugsað óháð skynjun skilningarvit-
anna.7
Af þessari þrískiptingu mögulegra umhugsunarefna leiðir Páll svo þá þrjá heima
þar sem umhugsunarefnin birtast: „Samkvæmt þessu [þ.e. þessari þrískiptingu
umhugsunarefnanna] mætti segja að heiminn beri fyrir okkur á þrjá vegu: sem
hugarheim, náttúruheim og merkingarheim.“8 Það væri í sjálfu sér vel hægt að
setja spurningarmerki við réttmæti þess að flokka umhugsunarefni okkar annars
vegar sem náttúruleg og hins vegar sem mannleg og það er auðvitað hægt að finna
mörg dæmi um slíkt í heimspekisögunni. Það er þó óneitanlega í þriðja flokknum,
flokki þess sem er óháð skynjun skilningarvitanna, sem sérstaða kerfis Páls birtist
skýrast. Við getum því sagt að merkingarheimurinn, sá heimur sem við getum
aðeins nálgast í gegnum hugsunina, sé kjarninn í kjarnanum í heimspeki Páls.
7 Páll Skúlason 2015: 22.
8 Páll Skúlason 2015: 37.
Hugur 2017-6.indd 69 8/8/2017 5:53:28 PM