Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 166
166 Jóhannes Dagsson
ekki. Þó svo að skák snúist um að færa leikmenn til á borði, þá er einnig vel hægt
að ímynda sér hana sem leik sem fer aðeins fram í hugum þátttakenda. Ég hef
ekki mikla reynslu af skák, þannig að í hvert skipti sem ég sest niður til að tefla
þá leik ég eflaust leiki sem ég hef aldrei leikið áður. Það er ekki þar með sagt að
þetta séu skapandi lausnir innan skáklistarinnar og reyndar er nokkuð öruggt að
svo er ekki. Þessir leikir eru nefnilega fyrirsjáanlegir, og útskýranlegir, eingöngu
með tilvísun til þeirra reglna sem skákin samanstendur af. Það er að segja, ég
hefði getað leikið þessa leiki áður, eingöngu í krafti þess að kunna reglurnar sem
gilda. Þeir eru því nýir, en ekki skapandi. Það er ekki fyrr en kemur að því að ég
leik leik sem er algerlega nýr í þeim skilningi að vera algerlega ný lausn á þeirri
stöðu sem komin er upp, og ekki er hægt að útskýra með tilvísun til þeirra reglna
sem leikurinn byggir á, að hægt er að segja að ég hafi notað sköpunargáfu í leik
mínum, í þeim skilningi sem lagður er í hugtakið hér.3
Kerfi eins og tungumál og leikreglurnar í skák geta því verið framkallandi (e.
generative), það er þau geta verið þess eðlis að þau gera ákveðnar samsetningar
mögulegar, og þessar samsetningar eru fyrirsjáanlegar, sé fyrir hendi þekking á
reglunum sem kerfið byggir á.
Þegar við tölum um sálfræðilega sköpun skiptir ekki máli hvort einhver annar
hafi fengið þessa sömu hugmynd áður, heldur er aðeins um nýsköpun að ræða í
þeim skilningi að hugmyndin er ný fyrir þeim einstaklingi, eða það fyrirbæri, sem
fær hana, og þessi tiltekni einstaklingur hefði ekki getað fengið þessa hugmynd
áður. Þessa tegund sköpunar mætti kalla P-sköpun (persónuleg sköpun).4 Ég
mun fjalla nánar um seinna skilyrðið í skilgreiningu Boden (að viðkomandi gæti
ekki hafa fengið viðkomandi hugmynd fyrr) og hvernig það tengist hugmyndum
um kerfi síðar í greininni.
Þegar við tölum almennt um sköpun erum við ekki alltaf að vísa eingöngu til
sköpunar af þessu tagi, heldur til einhvers sem er nýtt eða nýskapað, í fyrsta skipti,
ekki einvörðungu í augum tiltekins einstaklings, heldur í sögunni. Róttækasta
dæmið af þessu tagi er vitanlega sköpun úr engu (lat. ex nihilo), þar sem eitthvað
verður til úr engu, bæði í efnislegum skilningi og eins í þeim skilningi að það sem
er skapað á sér enga fyrirmynd eða reglu sem forskrift. Sköpun sem þessi, með
orðinu einu saman, verður ekki mikið til umfjöllunar hér, enda vandséð að hún
sé möguleg ef niðurstaða mín er rétt. Hún er hins vegar nefnd hér sem dæmi þar
sem hún er óvenju skýrt dæmi um þessa tegund sköpunar, sé hún möguleg.
Þessi tegund af sköpun, eða þessi flokkur skapandi hugmynda, er vitaskuld
mun afmarkaðri en P-sköpun í þeim skilningi að hún vísar til einhvers sem er
bókstaflega nýtt í veröldinni, hvort sem það er hugmynd eða hlutur. Hér dugar
sem sagt ekki að eitthvað sé nýtt fyrir ákveðnum einstaklingi (og það jafnvel þó
svo skilyrðið um að hann hafi ekki getað fengið þessa hugmynd áður sé uppfyllt),
heldur verður hugsunin eða hluturinn að vera nýlunda í augum allra einstaklinga,
hvar sem þeir eru staddir í tíma fram til þess að hluturinn eða hugsunin lítur
dagsins ljós. Að finna upp ljósaperuna, eða dínamítið, eru dæmi sem koma upp í
3 Sjá t.d. Boden 2005, og Stokes 2011.
4 Boden 2005: 24–25.
Hugur 2017-6.indd 166 8/8/2017 5:53:59 PM