Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 58
58 Vilhjálmur Árnason
seminni. Einföld leið til að lýsa meginmuninum er að segja að skynsemi í meðför-
um Páls sé inntaksbundin en hjá Habermas sé hún aðgerðabundin. Þetta er megin-
atriði í hugmynd Habermas um nútímann: „Nútíminn einkennist annars vegar
af því að menn hafa afsalað sér efnislegri skynsemi trúarlegra og frumspekilegra
heimsskýringa hefðarinnar og hins vegar af trú á skynsemi málsmeðferðar.“34
Þetta hefur líka í för með sér ólíka sýn á ofbeldi sem andstæðu skynseminnar.
Hjá Habermas er ofbeldið ekki afneitun á heildarskipulagi mannlegrar tilveru,
einsog Páll orðar það,35 heldur margvísleg viðleitni til þess að grafa undan frjálsri
rökræðu eða hindra hana. Habermas leggur þannig megináherslu á aðferðina við
að ræða málin og skilyrði þess að umræðan sé málefnaleg og óþvinguð. Þess vegna
þróar Habermas undirstöður gagnrýninnar kenningar út frá málnotkunarfræði
(þ. Universalpragmatik) sem greinir nauðsynleg skilyrði þess að menn öðlist skiln-
ing í boðskiptum.36 Höfuðmarkmið hennar er að kanna þær siðrænu kröfur sem
felast í málgjörðum og þá hæfni sem menn þurfa að búa yfir til að mæta þeim á
árangursríkan og sanngjarnan hátt.37 Mikilvægur þáttur slíkrar málnotkunar-
fræði er útlistun á því hvernig ólíkar röksemdir hæfa ólíkum viðfangsefnum og
greining á þeim öflum sem standa málefnalegri rökræðu fyrir þrifum. Að þessu
leyti er enginn munur á heimspeki og vísindum; „það telst skynsamlegt að leysa
vandamál með góðum árangri með því að finna viðeigandi leiðir til að takast á
við veruleikann“.38
Í ljósi þessa mætti orða hlutverk heimspekinnar út frá skynsemiskröfunni, um
nauðsyn þess að styðjast við rök í öllum málflutningi og ekki síður um mikilvægi
þess að rökin hæfi viðfangsefninu. Þetta er nátengt kröfunni um gagnrýna hugsun
sem Páll þreyttist seint á að útlista og boða.39 Í þessu samhengi talar Habermas
um þá „þrjósku sem fær heimspekina til að halda í hlutverk sitt sem vörður skyn-
seminnar“.40 Það er óneitanlega viss spenna á milli þessa gagnrýnishlutverks og
þeirrar klassísku viðleitni að öðlast heildarskilning á tilverunni. En Habermas
gefur þá viðleitni samt ekki upp á bátinn og athyglisvert er að bera leið hans í því
efni saman við hugmyndir Páls. Habermas segir einungis mögulegt að endur-
heimta einingu skynseminnar, eins og hann orðar það, „í hversdagsleikanum og
ekki handan hans, í undirstöðum og hyldýpum klassísku skynsemisheimspekinn-
ar. […] Þannig gæti heimspekin raungert tengsl sín við heildina með því að ganga
í hlutverk túlkanda lífheimsins.“41
Í ljósi þess hvernig Páll orðar verkefni heimspekinnar í síðustu bók sinni, Merk-
ing og tilgangur, með vísunum til Aristótelesar og Plótínosar, er óhætt að segja að
hann leiti fanga í „í undirstöðum og hyldýpum klassísku skynsemisheimspek-
34 Habermas 2001: 226‒227.
35 Páll Skúlason 1993: 86.
36 Habermas byggir hér á kenningu Karls-Ottos Apel sem sótti m.a. í sjóð málgjörðarheimspeki
þeirra J.L. Austin og Johns Searle. Sjá Habermas 1979: 1‒68.
37 Sjá t.d. John B. Thompson 2008: 116‒133. Ég ræði samræðusiðfræði Habermas í Farsælt líf, réttlátt
samfélag, 17. kafla. Vilhjálmur Árnason 2008.
38 Habermas 1992: 35.
39 „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“, Páll Skúlason 1987: 67‒92.
40 Habermas 2001: 244.
41 Sama rit: 243.
Hugur 2017-6.indd 58 8/8/2017 5:53:25 PM