Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 103
Rifin klæði Soffíu 103
vilji „bóndinn erja sáðland frjótt, ryður hann fyrst jarðveginn, hreinsar burt með
skarpri sigð illgresi og þyrnóttan runn“.53 Það þarf að skýra heimspekileg hugtök
og lögmál til þess að geta skilið þau á nýjan hátt á grunni þeirrar visku sem býr
innra með manni sem líkamlegri veru og sem tilfinningaveru.
Heimspeki og kynjamismunur
Fyrir utan líkamleikann sem ég geri hér að umtalsefni í túlkun minni þá er hitt
meginatriðið, sem ég vil beina athygli að, hvernig kynjamismunur kemur inn
í textann með Heimspeki. Hún minnir Bóethíus á upphaf hans í móðurkviði
og hún minnir hann á hinn móðurlega kraft sem í honum búi, sem séu upp-
tök visku og þekkingar.54 Hlutverk Heimspeki minnir hér eilítið á gyðjuna sem
leiðir heimspekinginn Parmenídes inn í visku hennar. Þessi tengsl við gyðjur
gera þá Bóethíus og Parmenídes að boðberum raunverulegrar heimspeki, ólíkt
þeim heimspekingum sem einungis skreyta sig með pjötlum úr klæði Heimspeki.
Kvenleiki Heimspeki hefur með kvenlíkama hennar að gera. Kynjamismunur er
dýpsti og mikilsverðasti mismunur í náttúru-menningu og sem drifafl er hann
uppspretta óendalegs mismunar og fjölbreytileika. Mismunur kynjanna skap-
ar rými á milli þeirra þar sem þau hafa áhrif á hvort/hvert annað og umbreyta
hvoru/hverju öðru í krafti mismunar.
Tsakiridou staðhæfir að snerting milli rannsakanda og viðfangs sem nafnorðið
sophia standi fyrir byggi líkast til að mestu leyti (en ekki öllu) á „samförum og
getnaði“.55 Það þarf ekki mikið hugarflug til að koma auga á erótískar mynd-
hverfingar í upphafi Huggunar heimspekinnar þar sem Bóethíus skrifar að hann
„festi á blað með aðstoð skriffæris harma og raunir“ og verði þá þess áskynja að
kona standi nærri sér.56 Öllum slíkum erótískum víddum texta hefur lengst af
verið hafnað. Í 15. aldar túlkun á Huggun heimspekinnar eftir Konrad Humery má
t.d. finna viðleitni til þess að vísa allri dulinni erótík í textanum á bug. Í rannsókn
sinni á miðaldatúlkunum á texta Bóethíusar fullyrðir Hehle að Humery breyti
með túlkun sinni sambandi Heimspeki og Bóethíusar í „kurteislega vináttu“.57
Á þekkingarfræðilegum nótum þá felur hugmyndin um skynræn tengsl í sér lík-
an af þekkingu sem hefst á hugleiðingu um skynjun og skynhæfni. Hin líkamlega,
kvenlega Heimspeki er samkvæmt minni túlkun líkan af skynrænni þekkingu. Að
dómi Tsakiridou felst slík þekking í hæfni eins og að „vera fær um að segja hvort
barn verði getið, við hvaða aðstæður, hvort það haldi heilsu, og að sama skapi,
hvort að ávöxtur er tilbúinn til uppskeru, hvort að akur gefi af sér uppskeru, og þar
fram eftir götunum“.58 Slík þekking byggir á skynbragði sem hefur þjálfast með
reynslu, býr yfir upplýsingum, skilningi sem og innsæi og dómgreind. Friedrich
Nietzsche, sem var einnig sérfróður í forngrískri hugsun og hugarheimi, benti á
53 Sama rit: 79.
54 Sama rit: 56.
55 Tsakiridou 1999: 239.
56 Boethius 1982: 35.
57 Hehle 2012: 308.
58 Tsakiridou 1999: 239.
Hugur 2017-6.indd 103 8/8/2017 5:53:39 PM