Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 113
Raunveruleikinn er ævintýri 113
er þetta bara,“ segir Hume. Orsakasamhengi er hugboð um orsakir og tengsl.
Þetta viðhorf endurspeglast að einhverju leyti innan kennilegs raunsæis19 í hug-
myndum franska heimspekingsins Quentins Meillassoux. Hann álítur að það sé í
raun ekkert sem segir að náttúrulögmálin, lögmál eðlisfræðinnar, geti ekki breyst.
Þau eru ekki bundin nauðsyn.20
Hume lagði einnig áherslu á þá hugmynd að það að vera maður er miklu rík-
ari og flóknari hugmynd en svo að þekkingin og vísindin geti gert grein fyrir
henni. Enda var það síðar dregið í efa að tungumálið gæti með gagnsæjum hætti
gert grein fyrir heiminum. Á dögum Humes og Isaacs Newton töldu menn að
tungumálið væri miðill sem gæti teiknað upp sannferðuga og tæmandi lýsingu á
raunveruleikanum og að athugandinn gæti með hlutlausum hætti beint augum
sínum að fyrirbærunum og heiminum.
Skynjun er flókið og einstaklingsbundið fyrirbæri og Hume reyndi að skil-
greina hvað ætti sér stað innra með okkur þegar við skynjum. Hann greindi á milli
frumskynjana (e. impressions) og hugmynda (e. ideas). Frumskynjanir greinast enn
fremur í innri og ytri skynjanir. Upptök hugmynda eru í frumskynjunum. Hug-
myndir eru eftirmyndir þeirra og ímyndunaraflið gerir okkur svo kleift að setja
saman hugmyndir, sem aftur framkallar margvísleg tengsl og nýjar hugmyndir.21
Kópernikusarbylting Immanúels Kant
Kópernikusarbyltingu Kants má lýsa með þeim hætti að það eina sem við getum
vitað, er hvernig heimurinn birtist í skynjuninni. „Vitsmunir okkar draga ekki
lögmál sín úr náttúrunni heldur þröngva þeir lögmálum sínum upp á náttúruna“,
hefur austurrísk-breski heimspekingurinn Karl Popper eftir Kant.22 Einsog við
vitum setti Kópernikus fram sólmiðjukenningu á 16. öld, þar sem gengið var út
frá því að jörðin snerist í kringum sólina. Þessi mikla uppgötvun færði manninn
úr miðju alheimsins. Kant kallaði uppgötvun sína Kópernikusarbyltingu á þeim
forsendum að maðurinn skynjar heiminn engu að síður á sínum forsendum. Hver
maður er miðja í sínum alheimi. Að hans mati kemur maðurinn skipulagi á heim-
inn og heimurinn ber merki huga okkar.
Meillassoux heldur því fram að það sé öfugmæli að kenna kenningu Kants
við Kópernikus, því hin byltingarkennda hugmynd Kópernikusar var að staðsetja
sólina sem miðju sólkerfisins. Meillassoux telur hins vegar að Kant færi með sinni
kenningu miðjuna aftur beint til jarðarinnar og raunar lengra en það, þ.e. inn í
huga mannsins og að þar með hafi öll heimspekin verið bundin og einangruð við
hið mannlega svið.
19 Kennilegt raunsæi er þýðing greinarhöfundar á hugtakinu speculative realism, sem er afsprengi
hlutmiðaðrar verufræði og er einnig tilraun til þess að færa sig út fyrir mörk mennskrar vitundar.
Innan kennilegs raunsæis rúmast nokkur afbrigði en megineinkenni þessarar raunsæisstefnu er
að hafna einhliða áherslu á mannlega reynslu, eða því sem forkólfar stefnunnar nefna samhengis-
hyggju (e. correlationism), því að maðurinn hugsi allt í samhengi við sjálfan sig.
20 Meillassoux 2008: 66.
21 Morris og Brown, „David Hume“
22 Popper, „Immanúel Kant: Heimspekingur upplýsingarinnar“
Hugur 2017-6.indd 113 8/8/2017 5:53:42 PM