Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 36
36 Jón Ásgeir Kalmansson
forngríska orðinu yfir sjón sé „að sjá í undrun“ eða að „undrast yfir sýn“.31 Tengslin
eru sömuleiðis skýr milli latneska orðsins yfir undrun, admirare, og þess að sjá, en
orðstofninn mír vísar til sjónar. Þess vegna vísa ensku orðin admiration (aðdáun),
marvel (undur) og miracle (kraftaverk) öll til þess sem séð er í undrun.
Að sjá í undrun felur í sér visst hugarástand. Þannig gefur umræða Wittgen-
steins til kynna að andstæða undrunar sé svefn. Undrun er því í eðli sínu ástand
sem felur í sér árvekni eða vökulan huga. Árvekni í þessu samhengi þýðir ekki
bara að maður sé úthvíldur og geti einbeitt sér að einhverju verki, eins og að aka
bifreið eða leysa krossgátu. Sú athygli sem fólgin er í undrun er af öðru tagi. Við
getum sagt að hún varði það fremur hvernig við gætum að hversdagsleikanum.
Eftirfarandi setning Wittgensteins tjáir þessa hugsun: „Hið leyndardómsfulla
er ekki hvernig heimurinn er heldur að hann er.“ Ekkert er hversdagslegra en
tilvistin, við göngum yfirleitt að henni sem vísri. Við rekum alla jafna ekki upp
stór augu yfir því að ský skuli vera á himni, ljósastaurar úti á götu, eða grænt
gras úti á túni. Við lítum almennt á slíka hluti sem sjálfsagða. Tilvistin er að
þessu leyti eins og bakgrunnssuðið í ísskápnum sem við erum fyrir löngu hætt að
taka eftir. Og þó minna orð Wittgensteins okkur á að ekkert er eins fjarri því að
vera sjálfsagt og sjálf tilvistin. Hugtakið „leyndardómur“ í orðum Wittgensteins
vísar á eitthvað óútskýrt og óskiljanlegt – eitthvað sem er þess vegna undravert
og kraftaverki líkast. Hvers vegna er eitthvað til yfirhöfuð? Hvers vegna er ekki
bara algert tóm.32 Brenni slíkar spurningar raunverulega á manni, opna þær um
leið nýja sýn á hversdagsleikann, setja hann í allt annað samhengi en við höfum
yfirleitt tamið okkur að setja hann í. Undrun felur í sér ferska skynjun á hlutunum
vegna þess að við skynjum þá í annarri vídd eða með öðrum bakgrunni en við
erum vön. Ég mun víkja aftur að leyndardómshugtakinu í næsta undirkafla, en
hér er rétt að leggja á það áherslu að „leyndardómur“ í þessu samhengi vísar ekki
til leyndra dóma sem einungis innvígðum hópi er veittur aðgangur að meðan aðr-
ir mega éta það sem úti frýs. Leyndardómurinn er ekki leyndarmál heldur þvert á
móti opinn og aðgengilegur öllum. Við þurfum einungis að opna augun. Hann er
eins og svipur andarinnar í teikningunni. Ekkert felur hann annað en okkar eigin
afstaða eða blinda. Það þýðir á hinn bóginn ekki að okkur reynist yfirleitt auðvelt
að koma auga á hann. Öðru nær. Svo virðist sem ýmislegt í menningu okkar og
okkar eigin eðli geri okkur erfitt að bera kennsl á hann.33 Eða eins og sellóleik-
arinn kunni, Pablo Casals, orðar það í endurminningum sínum: „Fegurðin er alls
staðar nálæg en hve margir eru blindir! Þeir líta undur þessarar jarðar og virðast
ekki sjá neitt.“34
31 Quinn 2002: 6.
32 Hjá Leslie og Kuhn 2013 má finna umfjöllun heimspekinga og vísindamanna um spurningar sem
þessar.
33 Hér má til dæmis vísa í kunna greiningu Max Weber í „Starf fræðimannsins“ á því hvernig sá
kerfis- og rökbundni skilningur sem einkennir nútíma vísindi sneiðir algerlega hjá leyndardómi
og töfrum veraldarinnar. Sjá Weber 2011.
34 Casals 1970.
Hugur 2017-6.indd 36 8/8/2017 5:53:19 PM