Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 163
Hugur | 28. ár, 2016–17 | s. 163–179
Jóhannes Dagsson
Sköpun, kerfi og reynsla
Í þessari grein nota ég greiningu á hugtökunum kerfi annars vegar og reynslu
hins vegar til þess að færa rök fyrir því að hvert það fyrirbæri sem er skapandi,
þurfi að hafa ákveðna eiginleika til að bera til þess að við getum réttilega talað
um skapandi hugsun eða skapandi athöfn. Þessum eiginleikum er best lýst sem
hæfni til að öðlast fyrirbærafræðilega reynslu af því að gera eitthvað af ásetningi.
Ég sæki í smiðju höfunda eins og Margaret Boden og Dustins Stokes og beiti
hugmyndinni um kerfi til þess að varpa ljósi á hvað við eigum við þegar við tölum
um sköpunargáfu.
Ég greini hvaða eiginleika athöfn þarf að hafa til að geta talist skapandi. Sam-
kvæmt Stokes (2011) byggir hugtakið sköpun á ákveðinni hugmynd um ásetning
(e. agency). Í síðari hluta greinarinnar fylli ég betur upp í þessa hugmynd Stokes
og sýni fram á að sköpun, og það að vera skapandi, samræmist ekki hvaða hug-
mynd sem er um verknað eða athöfn.
Niðurstaða mín er sú að skapandi athafnir sæki sérkenni sín í ætlan, reynslu
og hugarástand þess sem skapar, en ekki sé hægt að dæma um þau út frá útkomu
skapandi athafnar, hvort sem það er listaverk, ný setning eða eitthvað annað. Ég
set einnig fram fyrstu drög að því hvaða módel eða mynd af ætlan sé best til þess
fallin að útskýra sköpunargáfu og skapandi athafnir.
I. Kerfi og sköpun, nokkur atriði til athugunar
Hugtökin kerfi og sköpun eiga ekki mikla samleið í daglegu tali. Nánast ósjálfrátt
kallar kerfi á hugtök eins og reglu, fyrirsjáanleika, endurtekningu, óumflýjanleika
og nauðsynleika. Sköpun kallar á annars konar hugtakamengi; frumlegt, nýstár-
legt, hending, óreglulegt og jafnvel ómeðvitað. Það má líta svo á að kerfi og sköpun
standi fyrir sitt hvorar öfgarnar í því hvernig ákveðnar athafnir og/eða aðgerðir
séu tilkomnar, annars vegar eftir reglu sem ákveðið kerfi segir til um eða inniheld-
ur, og hins vegar án reglu, óvænt, eða eftir illútskýranlegum ferlum sem oft hafa
fengið á sig rómantískan ljóma. Hugtökin eru því ekki andstæður, heldur standa
sitt á hvorum pólnum í tilraunum okkar til þess að útskýra athafnir og aðgerðir.
Hugur 2017-6.indd 163 8/8/2017 5:53:58 PM