Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 71
Merking og tilgangur heimspekikerfa 71
það í viðtalinu við Björn að „[s]ú heimspeki sem fram hefur komið og er hvað
öflugust hvað það varðar að hugsa merkingarheiminn er heimspeki Hegels, vegna
þess að hún hugsar í senn efnisheiminn eða náttúruheiminn og handanheiminn
með tilliti til merkingarheimsins.“11 Í kerfi Páls líkt og í kerfi Hegels er merk-
ingarheimurinn hinn sanni heimur vegna þess að hann inniheldur hina heimana
að því leyti sem þeir eru heimar, þ.e. að því leyti sem þeir hafa merkingu. Og þar
sem merking er í augum Páls ákveðin heild afmarkaðra fyrirbæra sem vísa hvert
til annars hefði hann getað tekið heilshugar undir með Hegel um að hið sanna
er heildin.
Þannig eru þær hugmyndir sem Páll setur fram í „Hugleiðingum um Öskju“12
mjög í anda Hegels, því þar kemur fram hugmynd um náttúruna „í andlegum
skilningi“ sem við mennirnir þurfum stöðugt að endurnýja tengsl okkar við. Á
sama hátt reyndi Hegel í kerfi sínu að sameina náttúru og anda með því að sýna
fram á að andinn byggi í náttúrunni, að hún hefði merkingu í sjálfri sér óháð
þeirri merkingu sem við þröngvum upp á hana. Þannig mynda plönturnar, sam-
kvæmt Hegel, merkingarkerfi með sólinni með því að gera hana að miðju tilveru
sinnar, enda er það þangað sem þær sækja alla sína næringu. Þannig má líka
hugsa Öskju sem merkingarkerfi sem myndast í kringum sprunguna sem glóandi
hraun streymdi einhvern tíma út um og hefur tengsl við önnur slík kerfi, t.d.
aðrar eldstöðvar, og jörðina í heild sinni án þess að nokkurs staðar þurfi að vísa til
mannsins sem uppsprettu þessarar merkingar.
Það má kannski segja að þannig felist í hugmynd Páls um merkingarheiminn
sem hinn sanna heim, sem sannleikann um náttúruheiminn og hugarheiminn, að
í rauninni sé sjálfstæði þessara heima sem við þekkjum úr reynslu okkar einungis
sértekning eða abstraksjón: „Í reynslu okkar er heimurinn einn en ekki margir,
þótt við greinum hann með þessum hætti.“13 Páll setur fram sína þriggja heima
kenningu einungis til að sýna fram á að hinar ólíku hliðar tilveru okkar séu bara
aðskildar á yfirborðinu. Í raun sé heimurinn einn.
Þó að seinni rökin sem ég nefndi fyrir merkingarhyggju Páls virðist frekar inn-
blásin af heimspeki Heideggers og hugmyndum hans um að sú vera sem maður er
sé alltaf til í einhverju samhengi sem hún hefur ekki stjórn á, sé alltaf, með orða-
lagi Heideggers, „vera-í-heiminum“, heiminum sem henni er „varpað“14 í, þá má
einnig greina í rökunum ummerki heildarhyggju og andatrúar Hegels. Þannig er
andinn, sem við getum skilið hér sem merkingarkerfi, kallaður til á lykilaugnabliki
í sögu vitundarinnar sem sögð er í Fyrirbærafræði andans.15 Vitundin stendur þá
frammi fyrir því vandamáli að geta ekki gert greinarmun á sjálfri sér og umheim-
inum. Hún þarf því að beina sjónum inn á við og spyrja sig hvers kyns vera hún
eiginlega sé. Hér, þegar vitundin verður að sjálfsvitund, leggur Hegel áherslu á
11 Páll Skúlason 2015: 220.
12 Páll Skúlason 1995/2014a.
13 Páll Skúlason 2015: 37.
14 Heidegger kemur fram með hugtökin „In-der-Welt-Sein“ og „Geworfenheit“ í frægasti verki
sínu, Sein und Zeit (Heidegger 1927/1977). Páll skýrir hugtökin einnig í 2. kafla Merkingar og
tilgangs: Páll Skúlason. 2015: 43 o.áfr.
15 Hér á ég við kaflann um sjálfsvitundina (Selbstbewußtsein).
Hugur 2017-6.indd 71 8/8/2017 5:53:29 PM