Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 170
170 Jóhannes Dagsson
eigna gervigreind eiginleika af þessu tagi. Þeirri spurningu þurfum við að svara
áður en við svörum því hvort gervigreind geti verið skapandi. Stokes bendir á
að það að tala um t.d. fallegt mynstur sem frostlyfting hefur myndað í leirflagi
sem afurð sköpunargáfu hljómi undarlega, þar eð enginn ásetningur er þar að
baki. En ef við finnum hins vegar smíðisgrip, þá er ekkert óeðlilegt að eigna
höfundi hans sköpunargáfu, en við gerum það af því við erum tilbúin til að tala
um ætlan og um að smíðisgripurinn hafi verið gerður vitandi vits.10 Þetta á við
jafnvel þó að við vitum ekkert um raunverulega ætlan höfundar smíðisgripsins.
Stokes bendir einnig á að þó svo það að eigna einhverjum sköpunargáfu feli í
sér að eigna viðkomandi ásetning, þá fylgir ekki þar með að við séum að eigna
viðkomandi ákveðinn ásetning, það er að segja þann ásetning að búa til nákvæm-
lega þennan hlut. Eins og Donald Davidson hefur sýnt fram á, er það að eigna
einhverjum ásetning ógagnsætt (e. attributions of intention are opaque). Til dæmis
ásetur Hamlet sér að drepa manninn bak við myndvefinn, en hann hefur ekki
þann ásetning að drepa Póloníus, sem er í raun maðurinn bak við myndvefinn.11
Ef við hefðum ekki þessa leið til að tala um ásetning er vandséð að við gætum
eignað jafnvel mennskum einstaklingum ásetning í skapandi aðgerðum. Það er
t.d. umdeilanlegt hvort margir myndlistarmenn gætu svarað eftirfarandi spurn-
ingu játandi: „Ætlaðir þú þér að gera nákvæmlega þetta listaverk á meðan þú
vannst að því?“ Ásetningur er oft á tíðum ekki svo skýrt afmarkaður að geta fallið
undir slíkar skilgreiningar.
Eins og Stokes bendir á, þá er ekkert því til fyrirstöðu að rugla saman afurð-
um skapandi hugsunar og t.d. náttúrulegum fyrirbærum. En það er ekki þar (í
hlutunum) sem við finnum greinarmuninn á milli skapandi hugsunar og þess sem
bara gerist án nokkurrar meðvitundar, heldur er það í gerandanum, í aðgerðinni
sjálfri, og í því hvernig aðgerðin sjálf verður til, í því hvernig hún er hugsuð ef svo
má segja. Hér má líka benda á að ef við föllumst á þessa röksemdafærslu Stokes,
þá erum við í fullum rétti að finnast við svikin þegar við komumst að því að pí-
anóleikarinn sem við vorum að hlusta á er forrit en ekki mennskur einstaklingur,
svo dæmi sé tekið þar sem sköpun á einhverju nýju felst eingöngu í túlkun á
einhverju sem fyrir liggur. Það er ekki afurðin sem skiptir máli, heldur sú hugsun
eða ætlan sem liggur að baki.
Ásetningur, það að gera eitthvað af ásetningi, felur í sér að það gerist ekki af til-
viljun eða óvart. Ef eitthvað er gert af ásetningi, þá er það gert með vilja (allavega
samkvæmt öllum hefðbundnum kenningum um ásetning) í þeim skilningi að það
er ekki undir heppni eða tilviljun komið. Jafnvel þó svo ég hafi ekki ásett mér að
mála nákvæmlega þessa mynd þegar ég byrjaði að bera málningu á strigann, þá
hafði ég þann ásetning að mála mynd, og það er ekki tilviljun eða undir heppni
komið að ég bar málningu á strigann. Ég hrasaði ekki um köttinn með hendurnar
fullar af penslum og málningardósum.
Ef eitthvað er gert af ásetningi er eðlilegt að gera ráð fyrir því að einhver beri
ábyrgð á þeirri athöfn. Við lofum eða löstum þann sem gerir eitthvað af ásetn-
10 Stokes 2011: 659–660.
11 Davidson 1980: 46. Fengið hér úr Stokes 2011: 661.
Hugur 2017-6.indd 170 8/8/2017 5:54:00 PM