Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 168
168 Jóhannes Dagsson
auðvelt er að sjá fyrir sér, eru öll nýju en yfirmáluðu verkin sem listamaðurinn þarf
að fara í gegnum áður en hann nær réttri útkomu.
III. Hugtakið kerfi
Nú vík ég aðeins að hugtakinu kerfi.7 Í því samhengi sem hér er til umfjöllunar
hefur mest borið á kerfum sem eru háþróuð og flókin eins og t.d. vélum sem hafa
möguleikann á gervigreind. Gervigreind er áhugavert dæmi hér vegna þess að
þar virðist vera raunverulegur möguleiki á því að kerfi framkvæmi aðgerðir, að
eigin frumkvæði, í þeim skilningi að ekki þarf að vera um beina skipun mennsks
einstaklings að ræða. Margaret Boden, sem vitnað hefur verið til hér að ofan,
hefur einmitt leitast við að sýna fram á að ekkert sé því til fyrirstöðu að tala
um vél sem búin er gervigreind sem skapandi geranda, að uppfylltum ákveðnum
skilyrðum.8
Hugsum okkur að þú fáir sumarvinnu við að setja saman Volvo-bifreiðar.
Vinnan felst í því að standa við færibandið og skrúfa 8 mm bolta í rétt gat á grind
bifreiðarinnar, sem færibandið færir til þín og stöðvar fyrir framan þig. Þú skrúfar
alltaf eins bolta, í eins boltagat. Það eru alltaf jafn margir hringir sem þú þarft
að snúa til að boltinn sé fastur. Þú skrúfar 400 bolta á dag, alla daga sumarsins.
Við myndum eflaust lýsa vinnu sem þessari sem leiðinlegri, en ekki síður sem
kerfisbundinni. Ástæðan er sú að hér er engin, eða allavega mjög lítil, ástæða til
að beita sjálfstæðri hugsun. Ef þú aðeins fylgir reglunum, þá leysir þú verkið af
hendi á réttan hátt. Þú þarft ekki annað en að gera það sem þú átt að gera, það
sem reglan segir til um, og þá gengur allt vel. Þú þarf samt að vera með meðvitund
og hugsandi, í þeim skilningi að vera fær um að taka upp boltann og finna rétt
gat á grindinni og hætta að snúa þegar boltinn er orðinn fastur. Hérna er það
kerfið sem skapar útkomuna, það er ekkert við þitt framlag sem veldur sérstökum
blæbrigðum á henni, hver sem er annar gæti skrúfað boltann, jafnvel vél væri fær
um það, án þess að nokkur munur væri sjáanlegur.
Ég minntist á skák hér að ofan. Þróum það dæmi aðeins lengra. Hugsum okkur
að þú sért að tefla. Þú kannt reglurnar og mannganginn. En hér dugar ekki að
fara aðeins eftir reglum kerfisins, eitthvað meira þarf til svo að þú náir góðum
árangri, það er að segja, til þess að þú hafir betur í henni. Við gætum freistast til að
segja að hér þyrfti sjálfstæða og jafnvel skapandi hugsun til þess að ná árangri, við
gætum freistast til að halda því fram að kerfið sem slíkt búi aðeins til rammann
utan um athafnir þínar, það segi til um hvað má og hvað má ekki, en það ráði ekki
útkomunni. Hér verðum við þó að fara varlega. Ákveðin forrit eru jú betri í skák
7 Hinir ýmsu heimspekingar hafa fjallað um kerfi á ótal mismunandi vegu, og af mismunandi
ástæðum, í mismunandi samhengi. Kannski væri hægt að verja þá skoðun að heimspeki Descartes
fjalli að miklu leyti bara um kerfi, og hvernig beri að skilja þau, og koma fyrir frjálsum vilja innan
þeirra. Ég minnist nánast ekkert á þessar þreifingar heimspekinga hér, vegna þess að það sem ég
er að leita að í kerfishugmyndinni er mjög sértækt, og hefur aðeins með samanburð við mennska
einstaklinga og athafnir þeirra að gera, undir mjög sérstökum kringumstæðum, nefnilega þegar
þeir eru skapandi, eða framkvæma skapandi aðgerðir.
8 Sjá t.d. Boden 2010.
Hugur 2017-6.indd 168 8/8/2017 5:53:59 PM