Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 129
Rökgreiningarheimspeki sem gagnrýnistól 129
Rökfræðileg raunhyggja
Svokölluð rökfræðileg raunhyggja sem einnig er þekkt undir heitinu rökfræðileg-
ur pósitívismi (e. logical empiricism eða logical positivism) eða einfaldlega pósití-
vismi hafði mjög mótandi áhrif á þróun rökgreiningarheimspeki. Um er að ræða
hreyfingu sem myndaðist í Vínarborg á þriðja áratug síðustu aldar og átti svo
eftir að hafa umtalsverð áhrif í Bretlandi og Bandaríkjunum, einkum á þróun vís-
indaheimspeki, rökfræði, málspeki og þekkingarfræði. Pósitívistar eru þekktastir
fyrir að leggja mikla áherslu á vísindalega og röklega hugsun og að hafna allri
frumspeki og á seinni tímum hefur lítið farið fyrir því að þeir væru sérstaklega
orðaðir við samfélagsmál. Ef eitthvað er þá hefur tilhneigingin verið sú að líta á þá
sem fulltrúa þeirra sem vilja bola allri gildishlaðinni umræðu út úr heimspekinni.
Hreyfingin hefur þannig hlotið þá ímynd í hugum margra í seinni tíð að hafa
jafnvel verið andpólitísk en þegar saga hennar er skoðuð, má sjá að beinlínis var
lagt upp með ákveðnar hugsjónir varðandi áhrif á samfélagið og að sumir pósití-
vistanna voru þess utan mjög róttækir og höfðu það markmið að nota heimspeki
sína til að þoka þar að lútandi stefnumálum áfram.
Eins og nefnt hefur verið varð rökfræðilegur pósitívismi til í Vín á árunum milli
stríða. Á þessum tíma var talsvert um að menntamenn kæmu saman á heimilum
hver annars og mynduðu klasa, svokallaða hringi, eftir áhugasviðum og hugðar-
efnum.9 Sá hringur sem átti eftir að verða þekktastur var sá sem hittist á heimili
heimspekiprófessorsins Moritz Schlick og hefur verið kallaður Vínarhringurinn
(þ. Wiener Kreis) og er einmitt sá hópur sem verður rætt um hér. Meðal meðlima
hópsins má nefna, auk Schlicks, Rudolf Carnap, hjónin Otto Neurath og Olgu
Hahn-Neurath, bróður Olgu, Hans Hahn, Herbert Feigl, Karl Menger og Kurt
Gödel. Á sama tíma varð til nátengdur hringur í Berlín og í honum voru meðal
annarra Hans Reichenbach, Carl Hempel, Richard von Mises og David Hilbert.
Árið 1929 sendu félagar Vínarhringsins frá sér stefnuskrá sem lýsir því sem líta
má á sem helstu kennisetningar hringsins. Stefnuskráin var samin af Otto Neur-
ath og yfirfarin og lagfærð af Rudolf Carnap og Hans Hahn og allir þrír skrifuðu
undir og tileinkuðu hana Moritz Schlick. Hún bar heitið „Wissenschaftliche
Weltauffassung: Der Wiener Kreis“, eða „Hin vísindalega heimsmynd: Vín-
arhringurinn“. Í stefnuskránni má greina fjóra meginþætti: 1) Að vísindi og vís-
indaleg þekking hafi sérstakt gildi, 2) að mikilvægt sé að setja hlutina fram á skýru
máli og með skýrum rökum, 3) áherslu á sannreynslu og röksannindi til að styðja
sanna þekkingu, 4) andstöðu við frumspeki.10 Á þessum tíma var hið pólitíska
andrúmsloft í Vín þannig að fylkingar höfðu skipast í lífsskoðunum ýmist með
eða á móti vísindalegri heimsmynd og það eitt að lýsa yfir stuðningi við vísinda-
lega heimsmynd fól það í sér að taka sér ákveðna stöðu í hinu pólitíska litrófi. Frá
1918 til 1934 réðu sósíaldemókratar ríkjum í Vínarborg og borgin var uppnefnd
hin rauða Vín (þ. Rotes Wien). Meðal þeirra gilda sem haldið var á lofti á þeirra
vegum voru framgangur náttúruvísinda og alþýðufræðsla (þ. Volksbildung), en þar
9 Dekker 2014.
10 Romizi 2012: 213–216.
Hugur 2017-6.indd 129 8/8/2017 5:53:47 PM