Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 73
Merking og tilgangur heimspekikerfa 73
og óvirkum óendanleika og góðum og virkum sem gerir Páli kleift að hugsa
merkingu merkingarleysisins, einingu þessara andstæðna. Hegel útskýrir það í
Rökfræði sinni að óendanleikann sé hægt að hugsa sem möguleikann til að halda
endalaust áfram, eins og í talnarunu þar sem alltaf er hægt að bæta einni tölu
við.19 Í augum Hegels er hér ekki um raunverulegan óendanleika að ræða vegna
þess að talnarunan er alltaf endanleg. Sama hversu lengi við höldum áfram, eftir
sem áður höfum við alltaf bara safnað saman svo og svo mörgum tölum og stígum
aldrei yfir hin ósýnilegu mörk sem greina hið óendanlega frá hinu endanlega.
Hinn virki og góði óendanleiki verður þá að vera óendanlegur í sjálfum sér en
ekki bara í einhverri ímyndaðri framtíð, þegar búið er að bæta einum við enda-
laust. Hann er þá ekki einskær möguleiki heldur raunveruleiki og þannig virkur
óendanleiki. Ef um er að ræða talnarunu þá er það talnaruna sem inniheldur
óendanlega margar tölur, þar með talið allar óendanlegar talnarunur í óvirka
skilningnum. Hinn virki óendanleiki ber, eins og Páll segir, „í sér fullkomnun
sína“20, þ.e. fullkomnun sína sem óendanleika, og „er ekki afmarkaður af neinum
öðrum veruleika“21 eins og hin óendanlega talnaruna er afmörkuð af veruleikan-
um þar sem hún getur haldið endalaust áfram, sem hlýtur þá að vera virkur óend-
anleiki. Þannig tengir Páll hugmyndina um virka óendanleikann við hugmyndina
um merkingu. Merkingin er eins og óvirki óendanleikinn aðeins höndlanleg í af-
mörkun sinni. En hún er háð hinum virka óendanleika sem afmarkar hana. Hinn
virki óendanleiki er þá eins og merking merkingarinnar, það sem gerir merk-
ingunni kleift að afmarkast sem merking, undantekningin sem sannar regluna.
Askja í meðförum Páls er tákn um þess konar virkan óendanleika, enda birtist
hún honum sem hinn algeri annarleiki þeirra merkingarkerfa sem við mennirnir
höfum komið okkur upp. Þannig má skilja hvers vegna hið óskiljanlega hefur
svona mikla merkingu fyrir okkur: það er vegna þess að það er í vissum skilningi
lykillinn að merkingunni og uppspretta hennar. Það er, eins og hið góða í frum-
myndakenningu Platons, frummynd frummyndanna eða sannleikur sannleikans.
Kerfi Hegels er þannig innblástur fyrir kerfissmíði Páls á þrenna ólíka vegu. Í
fyrsta lagi er Páll innblásinn af heildarhyggju Hegels. Fyrir báða tvo er heimspek-
in tæki til þess að hugsa heiminn í heild sinni, því það er aðeins í þessari heild
sem hann er hinn sanni heimur merkingarinnar. Í öðru lagi er hann innblásinn af
heimspeki Hegels að því leyti sem sú heimspeki sýnir fram á mikilvægi andans
og merkingarheimsins fyrir okkur mennina. Þannig er hún ágætt móteitur við
hvers kyns sjálfdæmishyggju sem boðar að menn geti bara hugsað það sem þeim
sýnist og að það þýði ekkert að ræða um það, heldur sé það eina rétta að sýna
ólíkum skoðunum virðingu. Í þriðja lagi hugsar Páll í anda Hegels merkinguna
og heildina í einingu sinni við andstæðu sína, hið óskiljanlega. Þannig minnir
19 Sjá Hegel 1812/1986: 149–173 og 260–371. Ég fylgi nokkurn veginn túlkun Alains Badiou (sjá Bad-
iou 1988: 181–190). Badiou telur reyndar að Hegel takist ekki að sýna fram á tilvist virks megind-
legs óendanleika innan kerfis síns eins og í dæminu sem ég tek hér. Það skiptir þó ekki öllu máli
hér, því Páll virðist eingöngu hugsa um óendanleikann sem eigindlegan: helsta – kannski eina
– dæmið hans um óendanleika er guðdómurinn, sem hann skilgreinir eigindlega.
20 Páll Skúlason 2015: 71.
21 Páll Skúlason 2015: 71.
Hugur 2017-6.indd 73 8/8/2017 5:53:29 PM