Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 127
Rökgreiningarheimspeki sem gagnrýnistól 127
endanna svo þeir geti tekist á við umdeildar spurningar. Nemendur þurfi að til-
einka sér ýmsa hæfni fremur en að láta mata sig, þeir þurfi að geta myndað sér
eigin skoðun, áttað sig á því þegar reynt er að leiða þá á villigötur, geta rýnt í eigin
skoðanir, komist að óhlutdrægri lausn, komið auga á forsendur sem gengið er út
frá og forðast trúgirni. Þessar lýsingar ríma ágætlega við lýsingar á því sem við
höfum síðar tekið að kalla gagnrýna hugsun. Vert er að leggja áherslu á að sú sýn
sem Russell hafði á þessa gagnrýnu hugsun fól alltaf í sér nauðsyn þess að geta
litið ríkjandi samfélagsform gagnrýnum augum.
Ágætt dæmi um samfélagsgagnrýni Russells er greinasafn hans Iðjuleysið lofað
(e. In praise of idleness), sem kom út 1935. Í greininni sem ritið dregur nafn sitt af
færir hann rök fyrir því að rétt væri að stytta vinnudaginn niður í fjórar stundir og
gagnrýnir harðlega hvernig hinum vinnandi stéttum sé haldið niðri með allt of
mikilli vinnu og hvernig við höfum látið telja okkur trú um að vinnusemi sé dygð.
Russell vinnur þar með hugmyndir sem hann hafði sett fram áður, en hann talar
þar meðal annars um að óþarflega mikið sé unnið í heiminum og að mikilvægt
sé að allir hafi nægan frítíma. Frítími sé nauðsynlegur til að menningarlíf nái að
blómstra. Þetta kemur fram í mörgum verkum hans, ekki síst frá þriðja og fjórða
áratugnum. Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að gera hluti sér til ánægju
fremur en fyrir peninga eða vegna nytsemisgildis þeirra. Þannig talar hann um að
fólk hafi misst sjónar á því að þekking hafi gildi í sjálfri sér og sé of upptekið af
hagrænu gildi menntunar og þekkingar.5 Þetta sé merki um að kunna aðeins að
meta efnisleg gæði en hið raunverulega gildi menntunar felist í henni sjálfri, hún
verðlauni sig sjálf.6
Í annarri grein, „Modern Homogeneity“, fer Russell hörðum orðum um þá
einsleitni skoðana sem hann varð var við í heimsókn sinni til Bandaríkjanna árið
1930 og hann taldi hættulega, enda væru fylgifiskar hennar fordómar gagnvart
minnihlutahópum og þjóðernishyggja. Russell beinir spjótum sínum að þjóðern-
ishyggju í nokkrum greinum í greinasafninu og segir hana helstu orsök þess sem
hann kallar „dýrkun óskynseminnar“ (e. the cult of unreason). Hann lýsir fasisma
og kommúnisma sem hættulegum kreddum í greininni „Scylla and Charybdis“,
og segir fasismann þá hættulegri af þeim tveimur, enda séu þar bæði aðferðirn-
ar og markmiðin ómannúðleg. Um rætur fasisma fjallar hann svo sérstaklega í
annarri grein. Russell segist hins vegar sammála meginmarkmiði kommúnisma,
stéttlausu samfélagi, en hann geti ekki fellt sig við að eiga að ná markmiðinu
fram með byltingu og kjósi heldur friðsamlegar og lýðræðislegar aðferðir. Hann
setur þannig fram rök fyrir lýðræðislegum sósíalisma í greininni „The Case for
Socialism“. Russell mælir líka fyrir auknu frelsi kvenna sem hann segir t.d. vera
þjakaðar af of miklu álagi vegna heimilisverka. Í greininni „Architecture and the
Social Order“ mælir hann fyrir breyttu búsetufyrirkomulagi þar sem samrekstur
heimila geti gefið konum aukið frelsi frá heimilisstörfum.
Í formála greinasafnsins útskýrir Russell hugmyndina sem liggur að baki því að
raða þessum greinum saman. Þarna má sjá sýn hans á samfélagsgagnrýni:
5 Russell 1930: 225.
6 Russell 1926.
Hugur 2017-6.indd 127 8/8/2017 5:53:46 PM