Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 55
Hugsun hneppt í kerfi 55
er rauður þráður í heimspekisögunni, er því þriðja meginstefið í greiningu Ha-
bermas, auk skilnings og tæknivalds. Þessi þrískipting á rætur að rekja til greinar-
munar Hegels á vinnu og samskiptum, en frelsi er síðan þriðja lykilhugtakið í
greiningu Hegels.16 Þessa þrískiptingu má finna með ólíkum hætti í gagnrýnni
samfélagsgreiningu bæði Marx17 og Freuds.18 Kenning Habermas um ólíka
þekkingarhagsmuni, sem liggi til grundvallar tæknivísindum, túlkunarvísindum
og gagnrýnum samfélagsfræðum, var umdeild. Einkum var hann gagnrýndur fyr-
ir útfærsluna á frelsunarhagsmunum út frá hugmyndinni um gagnrýna sjálfsyfir-
vegun.19 Hann hvarf síðan frá þessari leið og þróaði kenningu um frelsun undan
óréttmætum valdatengslum og hugmyndafræðilegum yfirráðum sem skrumskæla
mannleg samskipti út frá boðskiptum og málnotkunarfræði.20
Í lýsingum þeirra Páls og Habermas á grundvallarlífsverkefnum leggja báðir
út af þörf manna til að hafa í sig og á og tengja hana hvor með sínum hætti við
efnahagskerfið öðru fremur. Páll útfærir það með kenningu sinni um efnisleg
gæði; Habermas út frá þeim yfirráðatengslum sem menn mynda óhjákvæmilega
við fyrirbæri sem lúta tæknilegri rökvísi vinnunnar. Báðir tala þeir líka um þörfina
á skilningi sem tengist því að hafa samskipti við sjálfa okkur og aðra til að geta
tekist á við lífsverkefni okkar. Í greiningu Páls er þetta hinn andlegi veruleiki
menningarlegra gæða og persónulegs þroska, en í meðförum Habermas er þörfin
á skilningi uppspretta samskipta. Sá boðskiptaveruleiki sem mótast í sögunnar rás
í þessum samskiptum myndar grundvöll einstakra athafna okkar og staðhæfinga,
þann lífsheim [þ. Lebenswelt] sem varðveitir þekkingu og merkingarforða kyn-
slóðanna (þar sem „hið eðlilega reynslusamband okkar við heiminn“ myndast, svo
notað sé orðalag Páls í Hugsun og veruleika21). Í raun má því segja að boðskipta-
veruleiki Habermas sé í stórum dráttum sambærilegur við menningarhugtak Páls,
en hjá Habermas er megináherslan lögð á táknbundin samskipti í andstöðu við
tæknileg yfirráð, fremur en á andleg gæði í andstöðu við efnisleg sem einkennir
lýsingu Páls.
Líklega birtist afdrifaríkasti munurinn á greiningum þeirra í ólíkum útfærslum
á þriðja lífsverkefninu sem Páll kennir við þörfina fyrir að deila gæðum og miðla
átökum, en Habermas við kröfuna um frelsun undan óréttmætum yfirráðum
og skynsamlega sjálfsstjórn. Hinn sameiginlegi kjarni í ólíkri nálgun þeirra er
16 Sbr. Habermas 1974: 4. kafli.
17 Hjá Marx verður efnisleg framleiðsla meginviðmið greiningar hans á mannlegum athöfnum en
greining hans á samskiptunum er undirskipuð henni. „Tungumál og vitund verða til þegar menn
þurfa og verða að hafa samskipti hver við annan“ bæði í framleiðslunni og í því sem Marx kallar
„endurframleiðslu lífsins“. Karl Marx og Friedrich Engels 1983: 27‒28. Í frelsishugsýn Marx felst
að menn framleiði sjálft samskiptaformið með vilja og vitund. Ég hef skrifað um þetta efni í
Vilhjálmur Árnason 2008: 8. kafli.
18 Sjá t.d. greinarmun Freuds á tveimur meginkröfum siðmenningar, annars vegar að læra að bjarga
sér með því að umbreyta ytri náttúru í eigin þágu og tileinka sér tæknireglur í því skyni, og hins
vegar að læra að haga sér og tileinka sér siðareglur sem samhæfa samskipti og umbreyta innri
náttúru í þágu samfélagsins. Sigmund Freud 1990: 34‒41. Frelsissýn Freuds felur í sér að stækka
yfirráðasvæði sjálfsins með því að losa það undan ómeðvituðum öflum þaðsins og yfirsjálfsins.
19 Sjá t.d. Henning Ottmann 1982: 79‒97.
20 Sjá gagnlega umfjöllun um þetta atriði hjá Thomas McCarthy 1978: kafli 2.4.
21 Páll Skúlason 1993: 98.
Hugur 2017-6.indd 55 8/8/2017 5:53:24 PM