Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 148
148 Finnur Dellsén
er ekkert þar á milli. Í þessum skilningi eru þær skoðanir sem hefðbundin þekk-
ingarfræði fjallar um tvísætar (e. binary). Við nánari umhugsun má þó ljóst vera að
hér er um talsverða einföldun að ræða. Staðreyndin er sú að við höfum missterkar
skoðanir á því hvort eitthvað sé satt eða ósatt, og því er að nokkru leyti villandi
að tala um skoðanir eins og um tvísætt fyrirbæri sé að ræða. Við getum til dæmis
velt því fyrir okkur hversu sterkar skoðanir við höfum á eftirfarandi fullyrðingum:
(a) 1 + 1 = 2.
(b) Ég er hugsandi vera.
(c) Bjarni Benediktsson er forsætisráðherra Íslands.
(d) Ég læsti útidyrunum í morgun.
(e) Peningurinn í veskinu mínu dugar fyrir hádegismatnum á eftir.
(f ) Rauðvínsdrykkja dregur úr líkum á hjartaáfalli.
(g) Bjarni Benediktsson verður forsætisráðherra eftir næstu þing-
kosningar.
(h) Það hefur verið brotist inn til mín síðan ég fór að heiman.
(i) Sturla Jónsson verður næsti forsætisráðherra Íslands.
(j) 1 + 1 = 3
Hverjar af þessum fullyrðingum myndum við telja sannar? Fyrir mitt leyti væri
ekki út í hött að segja að ég teldi (a)-(e) sannar. En ég er þó meira viss um að
1 +1 sé 2 en að ég hafi læst útidyrunum í morgun. Svipaða sögu er að segja um
fullyrðingarnar neðar á þessum lista. Segjum sem svo að ég telji að (h)-(j) séu
ósannar. Engu að síður er ég meira viss um að 1 + 1 sé ekki 3 en að það hafi ekki
verið brotist inn til mín síðan ég fór að heiman.
Þetta bendir til þess að það sé einskonar einföldun að flokka fullyrðingar eftir
því hvort maður telji eða hafi þá skoðun að þær séu sannar eða ekki. Í raun séu
skoðanir okkar mun nákvæmari en við höfum gert okkur grein fyrir hingað til.
Einföldunin sem um ræðir er kannski sambærileg og þegar við segjum að eitthvað
sé heitt eða kalt – við gætum verið nákvæmari með því að tilgreina hitastigið en
oft dugar að tala með ónákvæmum hætti um það sem í raun er afar nákvæmt
fyrirbæri. Að sama skapi telja sumir þekkingarfræðingar að tal um skoðanir sem
eitthvað sem við annaðhvort höfum eða höfum ekki, sé í raun ónákvæmt tal um
afar nákvæmt fyrirbæri sem kallast trúnaður (e. credence).6 Að leggja trúnað á eitt-
hvað er hliðstætt því að hafa tiltekna skoðun, en þó nákvæmara að því leytinu til
að trúnaðurinn getur fengið mörg ólík gildi. Þannig má segja að trúnaður okkar
gagnvart sumum fullyrðingum, t.d. (a), fái hámarksgildi – 100% trúnaður – en
trúnaðurinn gagnvart öðrum fullyrðingum, t.d. (j), fái lágmarksgildi – 0% trún-
aður. Fullyrðingar geti svo haft ýmis önnur gildi þar á milli eins og (b)-(i) benda
til. Með þessu móti eigum við að geta lýst afstöðu okkar gagnvart fullyrðingum
6 Á ensku hafa ýmis orð önnur en „credence“ verið notuð yfir fyrirbærið sem hér er þýtt sem
„trúnaður“, t.d. „partial belief“, „degree of belief“ og „subjective probability“. Hið síðastnefnda er
afar óheppilegt í þessu samhengi, því það er kenning en ekki skilgreiningaratriði að trúnaði skuli
vera hægt að lýsa sem líkum í skilningi líkindafræðinnar (sjá 3. hluta þessarar greinar).
Hugur 2017-6.indd 148 8/8/2017 5:53:52 PM