Hugur - 01.01.2016, Blaðsíða 120
120 Sigrún Inga Hrólfsdóttir
aðkomu áhorfanda til þess að fullnusta virkni sína. Upplifun af listaverki byggir
fyrst og fremst á samskiptum. Sjálfsveran setur þessar kenndir í samhengi við
reynslu sína og smíðar þannig hina fagurfræðilegu upplifun. Samtalið er á milli
listamanns, listaverks og áhorfanda. Þeirri spurningu er þó enn ósvarað hvernig
efni getur haft slík áhrif á andann.
Hugtökin „heimur“, „náttúra“ og „umhverfi“ eru allt hjálparhugtök sem að-
greina sjálfsveruna frá þeirri heild sem hún hrærist innan. Samkvæmt hlutmið-
aðri verufræði er enginn bakgrunnur til, því heildin er eitt samhangandi slím þar
sem ekkert tóm er að finna. En hugtökin sem talin voru upp, þau eru til og eru
mikilvæg, rétt einsog hugtakið manneskja er mikilvægt til þess að skilgreina þá
heild margra þátta, sem hefur þann eiginleika að þróa með sér vitund um eigið
sjálf. Hver sjálfsvera hefur nokkuð skýra vitund um það hvað tilheyrir henni og
hvað ekki og hvað er aðgengilegt öðrum og hvað tilheyrir hennar innri heimi.
Myndlist er tjáningarmáti og aðferðafræði, sem gerir manneskjur meðvitað-
ar um umhverfi sitt og samtíma og meðvitaðar um ferli og allar þær óteljandi
ákvarðanir sem það kallar á. Myndlist gerir miklar kröfur til þeirra sem hana
stunda, vegna þess að í henni er fólginn mikill lærdómur og stúdía um eðli og
verkan hins ytri heims í víðri merkingu. Hún er einnig mikil rannsókn á sjálfsver-
unni, hinum innri veruleika hvers og eins. Það er vandi að tvinna saman þessa tvo
heima og það getur kostað mikil átök. Listirnar vísa stöðugt út fyrir sig, jafnvel
þó að þær vinni eftir ákveðnum innri verkferlum. Innan listanna á sér stað stöðug
rannsókn sem beinist að lífinu sem heild. Listin sprettur bæði úr fortíð og fram-
tíð, en birtingarmyndin á sér stað í núinu. Í listinni er að finna draugagang liðins
tíma en einnig anda framtíðarinnar, hins óorðna og það er sameiginlegt verkefni
okkar allra að taka á móti því, hinu óorðna og ókomna, og móta með þeim hætti
að allir geti vel við unað.
Lokaorð
Tíminn mun leiða í ljós hvort kenningin um hlutmiðaða verufræði mun lifa af
sem grein innan heimspekinnar eða falla í gleymskunnar dá sem dægurfluga.
Fyrirbærið virðist hafa náð ákveðinni útbreiðslu og hefur sannarlega áhrif inn-
an myndlistarinnar. Í einhverjum skilningi er þessi heimspeki yrðing á því sem
margir, sem lagt hafa stund á myndlist, hafa vitað lengi.
Ágiskunin er til. Hugboðið. Yrðing þess ómögulega.
Hlutmiðuð verufræði gæti orðið hjálpartæki til þess að kanna heiminn og vit-
undina, hvort sem við vinnum innan lista, heimspeki eða vísinda, eða á mörkum
alls þessa. Aðferðir listarinnar hafa náð að nálgast margt af því sem vísindin hafa
ekki haft möguleika á að snerta. Alla fegurðina, melankólíuna, vandræðaganginn,
millibilsástandið og snertinguna við eitthvað sem er titrandi, hið hjartnæma.
Það er eitthvert flökt eða blikk sem knýr lífið áfram. Ekkert eitt má ráða, því þá
lamast samtalið. Allt er gætt eiginleikanum til þess að skynja og bregðast við, með
Hugur 2017-6.indd 120 8/8/2017 5:53:44 PM