Eimreiðin - 01.10.1923, Blaðsíða 33
eimreidin VILH]ÁLMUR MORRIS 289
Lifði hann og starfaði með litlum og veikum burðum hin síð-
ustu ár æfinnar, og þótt mörg ráð væru reynd, svo sem hæg
ferðalög (hin síðasta ferð hans var norður fyrir Noreg), and-
aðist hann 3. okt. 1896, 63 ára gamall. Hann var jarðaður
6. okt. við Kelmscott hið efra, þeim stað, er skáldið hafði
mest elskað og þar sem honum hafði þótt mestur »ilmur úr
grasi«. Næstur gröfinni stóð fóstbróðir hans og önnur hönd,
Burne Jones, (er þá hét Sir Edward), við hlið ekkju M. og
barna. Þar stóð og fjöldi annara fornvina hans, sem á lífi
voru. Það þótti og nýlunda á Englandi, að þar fylgdu þjónar
og vinnulýður líki ríkismanns, og allir með tárum. Einn þeirra
mælti við frú Morris: »Fyrirgefið ófimlega framkomu, því við
verkamenn berum líka þunga sorg, slíkan lánardrottinn finnum
við aldrei aftur*. En Burne Jones hafði sagt áður en vinur
hans dó: »Hvað skal eg eiga að gera og hvernig skal eg
eiga að fara að eftir hans dag?« og bætti við latínsku orð-
unum fornu: „í/æ soli! quia cum ceciderit, non habet suble-
vantem se. c: Vei hinum einmana! því að enginn er til að
reisa hann er hann fellur«. Einn af skörungum sósíalistanna
sendi þessi orð: »Morris félagi er ekki liðinn undir lok, að
minsta kosti trúir því enginn af oss félögum; hann lifir í
hjarta allra sannra karla og kvenna og mun það gera um
aldur og æfi«.
Einn af fornvinum hans segir: »Morris var stórmenni að
eðli og aðferð, góður maður og réttvís, en einrænn í sumum
háttum og sjálfum sér ávalt líkur, unni og ávalt hinum sömu
hlutum og ekki fremur ungur en gamall; brennandi mann-
vinur og allra framfara, en í listum og lífsspeki festi hann
fremur augun á fornri tíð en nálægri; enginn var umburðar-
lyndari og enginn sjálfstæðari en hann, og aldrei breyttist
stefna hans eða skap, og fyrir því virtu hann jafnt vinir og
jnótstöðumenn, voru og fáir hans makar meðan hann lifði*.
19