Eimreiðin - 01.10.1923, Blaðsíða 58
314
RABINDRANATH TAGORE
EIMREIÐIIV
taka stjórnvölinn og stýra heiminum þvert ofan í lögmál lífs-
ins — og hvernig fór! Það eru engin einkaleyfi til í tilverunnr
og allir verða að lúta hinum eina óbreytanlega konungi afr
lokum. Kærleikurinn er vegurinn til þess að finna sjálfan sig.
Eigingirnin leiðir aftur á móti til tortýmingar, því hún veldur
aðgreiningu og einangrun. Það er ennfremur jafnmikill glæpur
að reyna að útiloka sig frá heiminum eins og að fremja
sjálfsmorð, og Tagore telur það hina mestu fásinnu, að ætla
sér að finna guð með því að flýja heiminn.
Tagore boðar einnig fagnaðarerindi frjálsræðisins, en hið
sanna frjálsræði fæst aldrei fyrir þau gæði, sem hin vestræna
vélamenning hefir fært mannkyninu. Hún hefir þvert á móti
lagt þjóðirnar í nýja þrældómsfjötra. Vesturlandabúar hafa lagt
undir sig loftið, en lifa samt í sífeldum ótta við, að loftskipa-
flotarnir láti rigna eldi og brennisteini yfir jörðina. Vestur-
landabúar ferðast fram og aftur, ofan- og neðanjarðar og á
höfum úti, fljótara en fuglar himins, en eru fyrir bragðið orðnir
þrælar hraðans og samkepninnar. Þeir hrósa sér af því að
hafa útrýmt ótta þeim, sem vanþekkingin veldur, og þó standa
þjóðirnar brynjaðar á verði, og óttinn og tortrygnin lama þær.
Með ljósi þekkingarinnar þykjast þeir hafa svift burtu hjá—
trúarmyrkrinu, en lifa þó í sífeldum ótta við hákarla mann-
lífsins og meinvætti. Þeir þykjast frjálsir í trúarefnum, en eru
þó fjötraðir í kreddum og trúarjátningum.
Hið sanna frjálsræði, segir Tagore, öðlumst vér, þegar vér
hættum að undiroka umhverfi vort, en reynum í þess stað
að víkka vitund vora, með því að láta hana vaxa með um-
hverfinu og umlykja það, »því í djúpi vorrar eigin sálar er
alheimssálinni ætlað rúm«. Og þegar vér förum að lifa í sam-
ræmi við hin eílífu lögmál kærleikans, viskunnar og máttar-
ins, verður oss fljótt ljóst, að lífið er dásamleg langferð, sem
með hverjum nýjum degi birtir oss nýjar unaðssemdir.
Annars yrði það of langt mál, ef rekja ætti hér til nokk-
urrar hlítar skoðanir Tagores og kenningar, enda skal hér
staðar numið. Eins og áður er sagt, fékk Tagore Nóbels-
verðlaunin 1913, en auk þess hefir hann hlotið margvíslega
viðurkenningu, bæði í Evrópu og Ameríku. Englendingar
sæmdu hann aðalsnafnbót 1915, og á síðustu ferð hans um