Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Side 51
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012 51
Hrönn pÁlmadÓttir og JÓHanna einarSdÓttir
Vettvangur
Deildin hefur á að skipa fjórum leikstofum, tveimur stærri stofum og tveimur minni,
auk fataherbergis. Í báðum stærri leikstofunum voru há borð og stólar og hillur með
leikföngum. Í heimiliskrók sem var í horni annarrar leikstofunnar, voru heimilistæki
og húsgögn í hæð barnanna, plastbollar og diskar og ílát undan matvöru. Einnig voru
handtöskur, bílar og kubbar í stórum trékössum á hjólum á gólfinu. Í öðru litla her-
berginu voru hillur hátt uppi á vegg fyrir málningu og pappír. Á gólfinu var trékassi
með stórum trékubbum og borð og fáeinir stólar í hæð barnanna. Hitt litla herbergið
var nánast tómt fyrir utan spegil á vegg í hæð barnanna.
Í um það bil klukkustund, eftir að börnin höfðu snætt morgunverð, léku þau sér
í frjálsum leik. Leikföng, svo sem púsluspil eða ýmiss konar röðunarleikföng, voru
gjarnan sett á háu borðin og börnunum boðið að leika sér með þau. Sum barnanna
völdu sér leikefni sem þau náðu sjálf í en öðru hverju setti starfsfólk leikefni á gólfið
inni í minna herberginu, svo sem bílateppi og bíla eða stóra svampkubba. Einnig kom
fyrir að starfsfólk lagði diska og bolla á borð og bauð fáeinum börnum að setjast og
leika sér saman. Framan af leikstundinni höfðu börnin jafnan tækifæri til að ganga
á milli leikherbergja. Þegar börnin voru orðin mörg í annarri stóru leikstofunni var
þeim skipt upp í tvo hópa og dyrunum á milli leikstofanna lokað. Kaffitímar starfs-
fólks voru á sama tíma og frjáls leikur barnanna þannig að einn starfsmaður var yfir-
leitt með hvorum hópi og aðstoðaði og brást við þegar börnin leituðu eftir aðstoð eða
samskiptum.
Gagnaöflun
Gagnaöflun fór fram með þátttökuathugunum og voru myndbandsupptökur megin-
rannsóknaraðferðin. Þátttökuathuganir eru algengar í rannsóknum á daglegu lífi
barna í leikskólum. Þátttökuathuganir kalla á að rannsakandi geri sér grein fyrir
hlutverki sínu og taki afstöðu til þess að hve miklu leyti hann tekur þátt í því sem
fram fer á vettvangi og áhrifum á þátttakendur (Lichtman, 2006; Roberts-Holmes,
2005; Robson, 2011; Rolfe, 2001). Í öllu gagnasöfnunarferlinu var haft að leiðarljósi
að nálgast heim barnanna með varúð og virðingu. Rannsakandi var nærri börnunum
og leitaðist við að bregðast við frumkvæði þeirra ef þau leituðu til hans en tók ekki
beinan þátt í starfinu. Eftir því sem á leið og börnin vöndust nærveru rannsakanda
hófust myndbandsupptökur en þær hafa gefið góða raun í rannsóknum með börnum
í leikskólum (Gillund, 2007; Greve, 2007; Hrönn Pálmadóttir, 2004; Løkken og Søb-
stad, 1995; Pramling Samuelsson og Lindahl, 1999). Myndbandsupptökur ná þó ein-
ungis að fanga hluta af því sem gerist raunverulega í félagslegum samskiptum og geta
vettvangsnótur því veitt mikilvægar viðbótarupplýsingar um samhengi og yfirlit yfir
aðstæðurnar sem teknar eru upp hverju sinni (Walsh, Bakir, Lee, Chung og Chung,
2007). Í rannsókninni voru vettvangsnótur ritaðar bæði áður en myndbandsupptökur
hófust og samtímis upptökum. Í nótunum var félagslegum samskiptum barnanna lýst
og einnig er þar lýst ígrundun og hugmyndum sem vöknuðu um rannsóknarefnið.