Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Page 193
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 2012 193
katrín bJörg ríkarðsdóttIr
saMfélags- og MannréttIndadeIld akureyrarbæJar
Uppeldi og menntun
21. árgangur 2. hefti 2012
Nútímans konur
Erla Hulda Halldórsdóttir. (2011). Nútímans konur: Menntun kvenna og mótun
kyngervis á Íslandi 1850–1903. Reykjavík: Sagnfræðistofnun og
Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum. 388 bls.
Fyrir rúmum tuttugu árum var undirrituð ungur sagnfræðinemi við Háskóla Íslands
og komst þar í kynni við kvennasögu hjá Sigríði Th. Erlendsdóttur sem kveikti áhuga
margra, ekki síst ungra kvenna, á sögu formæðranna. Síðan þá hefur kvennasagan
átt stað í hjarta mínu og því gladdist ég mjög þegar Erla Hulda Halldórsdóttir, ein
af lærimeyjum Sigríðar, varði doktorsritgerð sína við sagnfræði- og heimspekideild
Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Nútímans konur: Menntun kvenna og mótun kyn-
gervis á Íslandi 1850–1903.
Útgáfa doktorsritgerðarinnar vakti strax verðskuldaða athygli enda því miður ekki
mjög algengt að út komi sagnfræðirit tileinkuð íslenskri kvennasögu. Þótt sagnfræð-
ingar og aðrir fræðimenn hafi beint rannsóknum sínum að þróun kvenfrelsisbaráttu,
kvenfélögum og góðgerðarfélögum kvenna hefur farið minna fyrir rannsóknum á
mótun kyngervis og samfélagslegu hlutverki kvenna. Menntunarsaga kvenna hefur
ekki heldur verið rituð en kvennaskólarnir gegndu stóru samfélagslegu hlutverki.
Rannsóknarefni Erlu Huldu er mótun kyngervis á Íslandi á síðari hluta 19. aldar.
Tímaramma rannsóknarinnar skýrir hún á þann hátt að fyrra ártalinu, 1850, sé ætlað
að tákna miðja 19. öldina þegar ýmsar breytingar voru um það bil að eiga sér stað
hérlendis. Síðara ártalið, 1903, valdi hún hins vegar þar sem það er síðasta árið sem
aðgangur stúlkna að Lærða skólanum var takmörkunum háður.
Erla Hulda skoðar hugmyndir um samfélagslegt hlutverk kvenna og hvernig þær
breyttust og mótuðust í umræðu og átökum hugmyndafræði og veruleika. Í kjölfar
hugmyndar um stofnun kvennaskóla árið 1870 hófst lífleg umræða í landsmála-
blöðum um hvers konar menntun hæfði konum og því sem kallað var kvenlegt eðli.
Töldu margir rétt að einskorða menntun kvenna við það sem hæfði hlutverki móður
og húsmóður. Erla Hulda fjallar um kvennaskólana en þó sérstaklega Kvennaskólann
í Reykjavík og Kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Hún beinir sjónum einkum
að því hvaða áhrif menntun kvenna og ekki síst umræðan um hana hafði á mótun