Skírnir - 01.01.1961, Blaðsíða 18
16
Einar Laxness
Skirnir
áður, m. a. sakir sparneytni hans og reglusemi, en laun sín
hjá biskupi lagði hann öll fyrir. Gefur það nokkuð til kynna
eðli hins unga stúdents. Sigldi hann til Kaupmannahafnar
undir haustið. En áður en gengið væri rakleitt að emhættis-
námi, var tilskilið, að stúdentar leystu af hendi tvenns konar
próf, fyrst aðgöngupróf, er hann lauk strax fyrir jól 1833,
með hárri 1. einkunn, en síðan svokallað 2. lærdómspróf í 2
hlutum, sem hann lauk með ágætum 1834, vor og haust.
Stúdentar, sem þessu námi luku, nefndust cand. philos., og
var það sú eina prófgráða, sem Jón hlaut um ævina. Lagði
hann þó fyrst á braut embættisnáms og hóf málfræðinám
hið meira, sem nefnt var svo. Voru þar aðalgreinar latína,
gríska og saga. En það virðist fljótt hafa komið í ljós, að Jón
ætlaði sér ekki að einskorða þekkingarþrá sína við það nám,
er hann hafði valið sér, því að hann gerðist snemma víðles-
inn mjög í evrópskum bókmenntum sem og fleiri greinum.
Þá er þess að geta, að 1835 naut Jón þess mikla trausts að
verða valinn annar af tveimur styrkþegum Árnasafns. Þar
hefur hann án efa notið Steingríms biskups, sem mælti mjög
með honum við Finn prófessor Magnússon, er var í stjóm
safnsins. Beint starf við safnið mun ekki hafa verið ýkja-
mikið, en að sjálfsögðu hlaut það að vera drjúgur ávinningur
fyrir Jón að fá þar aðgöngu að þeim vísindaiðkunum, er
hugurinn stóð til. Vegur hans óx líka skjótt, svo að hann
hlaut hvort tveggja, aukaþóknun fyrir störf sín og varð síðan
1. styrkþegi 1839, og það hafði hærri styrkveitingu í för með
sér. Tæpum áratug síðar var hann orðinn ritari Áma Magn-
ússonar nefndarinnar og því raunverulegur umsjónarmaður
safnsins.
Á öðrum vettvangi íslenzkra mennta í Kaupmannahöfn
lét hann skjótt til sín taka þessi árin, en það var framar
öðru með störfum sínum fyrir Bókmenntafélagið. Árið 1836
samdi hann með öðmm Skírni, sem þá flutti að mestu erlend
tíðindi. Skömmu síðar, eða 1837, var hann kosinn varaforseti
félagsins og síðan skrifari þess 1840. Tók hagur þess mjög
að blómgast, er Jón lagði þar hönd á plóginn, enda samdi
hann skýrslur um það og hag þess, er dró að sér athygli