Skírnir - 01.01.1961, Blaðsíða 114
112
Árni Björnsson
Skírnir
huldufólk flytti búferlum á nýársnótt átti að velja þá nótt
til að sitja á krossgötum einmitt til þess að verða á vegi
fyrir því. Kemur það þá ekki ferð sinni fram fyrir þeim,
sem á götunum situr og býður honum mörg kostaboð, gull
og gersemar, kjörgripi og kræsingar alls konar. Þegi mað-
urinn við öllu þessu, liggja gersemarnar og kræsingamar
eftir hjá honum og má hann eignast þær, ef hann þolir við
til dags.“ (J.Á. I 423).
Frægust saga af útisetu er um manninn, sem hafði þraukað
af nær alla nóttina, þrátt fyrir boð um gull og silfur, góð klæði
og dýrustu rétti, unz huldukona ein kom að lokum með heitt
flot í ausu og bauð honum, en það þótti honum alls matar bezt.
Varð honum það þá, að líta til hliðar og segja hin fleygu orð:
„Sjaldan hef ég flotinu neitað“, og varð þar með af öllum ger-
semunum og ráðlaus og rænulítill í þokkabót alla ævi.
Þá var það lengi siður, a. m. k. fram á síðustu öld, að „bjöða
álfum heima“ aðfangadags- og nýárskvöld, þvi að þá fluttu þeir
sig búferlum, og gat verið, að þeir hefðu viðkomu á bæjunum.
Sópaði þá húsmóðirin bæinn horna á milli og setti ljós i hvern
krók og kima, svo að hvergi bæri skugga á. Gekk hún síðan
út og í kringum bæinn, sumir segja þrem sinnum, og mælti:
„Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, og fari
þeir, sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu.“ Ljós var
oft látið loga í öllum hornum alla nóttina, og gætti húsfreyja
þess að skipta um, ef eitthvert þeirra slokknaði. Að minnsta
kosti var lengi siður að láta eitt ljós eða fleiri lifa í baðstofunni
alla jóla- og nýársnótt, og enn mun sá siður þekkjast að láta
a. m. k. eitt ljós lifa í húsi þær nætur.1) Þá eru til sagnir um
húsmæður, sem báru mat og vín á borð handa álfum á afvikn-
um stað í bænum á þessum nóttum. Átti það ævinlega allt að
vera horfið að morgni, og er það sjálfsagt satt, þótt ekki sé grun-
laust um, að einhverjir búálfar hafi þar tekið ómakið af hinum.
Þegar fáir eða engir voru heima þessar nætur, áttu álfarnir
það til, eins og áður er á minnzt, að koma í bæina með vistir
!) Til var sú trú eða munnmæli syðra, að ef maður gengi um hús í
myrkri á gamlárskvöld, þá dæi maður. Fyrir því á að kveikja ljós í öllum
húsum til þess að styggja ekki huldufólkið (Lbs. 3202 4to).