Skírnir - 01.01.1961, Blaðsíða 62
60
Einar Laxness
Skímir
konungur afhenti þar stjórnarskrána formlega. Þar átti hann
vitaskuld að vera fulltrúi þjóðarinnar gagnvart konungi öll-
um öðrum fremur.
Ekki fór svo, þrátt fyrir vilja Jóns, að hafin væri ný har-
átta fyrir umbótum á stjórnarskránni á því kjörtímabili, er
í hönd fór, — lokaferli Jóns Sigurðssonar. Að vísu kom ávarp
til konungs frá þinginu 1875 um skýrari stöðu íslandsráð-
gjafa, en bert var þá orðið, að danskur ráðherra skyldi skipa
þá stöðu og hafa sem aukastarf. En þetta lét Alþingi nægja, og
sjálfur hefur Jón vafalaust skynjað, að torvelt væri að sinni að
vinna menn til fylgis við að leggja upp í nýja herferð. Því
beið stjórnarskrárbaráttan síns tíma. Hún varð fyrsta verk-
efnið fyrir arftaka Jóns og fyrrverandi andstæðing hans,
Benedikt sýslumann Sveinsson, sem merkið hóf á loft við
upphaf 9. áratugs aldarinnar. Jón Sigurðsson var þó vakinn
og sofinn við að eggja menn á að íhuga breytingar á stjórn-
arskránni í bréfum þessi síðustu æviár sín. Af hans hvötum
kom grein um málið í Andvara 1877, rituð af systursyni og
uppeldissyni hans, Sigurði Jónssyni síðar sýslumanni. Sjálf-
ur ritaði Jón grein um fjárhagsmálið í Andvara 1875 og vill
eindregið láta Alþingi hefja rannsókn á fjárhagsskiptum Is-
lands og Danmerkur.
Mikilla starfa af hendi Jóns var ekki að vænta, úr því sem
komið var, enda ærið að gert. Kraftar eljumannsins tóku óð-
um að þverra, svo að er hann kom til Alþingis 1877, var sú
ferð ugglaust gerð meira af vilja en mætti, því að hann var
þá farinn mjög að heilsu. Þetta var síðasta þingið, er honum
auðnaðist að sitja á, og forseti þess var hann enn sem fyrr,
— síðasti sæmdarvottur, er honum veittist frá löndrnn sín-
um í lifanda lífi. Hann lifði þó um nokkurt skeið enn, en sár-
þjáður síðasta árið, unz hann andaðist 7. desember 1879, 68
ára gamall, en Ingibjörg kona hans lifði mann sinn 9 daga.
Útför þeirra hjóna fór fram í Reykjavík vorið eftir.
7.
Þegar lýsa skal ævistarfi hins mikla manns, er úr vöndu
að ráða, hverjum tökum skuli taka. Ævisaga hans er jafn-