Skírnir - 01.01.1961, Blaðsíða 274
272
Ritfregnir
Skímir
þætti íslenzkra fræða, sögu, bókmenntir og málfræði og eru komin út 18
hefti. Sögufélag hóf 1950 útgáfu tímarits, Sögu, en í Skírni, timariti Bók-
menntafélagsins, birtast einkum greinar um bókmenntaleg efni. Auk hinn-
ar miklu vísindalegu orðabókar, sem hefir verið í smiðum undanfarin 15
ár og hefir þegar safnað um 800.000 seðlum, er væntanleg á næsta ári
Viðbót við Blöndals orðabók, með nálega 40.000 orðum úr nýju máli, og
sýnir þetta, að mikill vöxtur er í rannsóknum íslenzkrar tungu.
A.J.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi: í Dögun. Helgafell, MCMLX.
Lík eru þessi ljóð bergvatnsá, sem hefur upptök sín í lindum við fjalla-
hlíðar, sameinast í einn farveg, streymir síðan lengi vel eftir hásléttu, en
fellur loks fram af henni i fossum til sjávar. Vatn hennar er hreint og
tært, kliðmjúkt, blæfagurt, laust við ólgu vorleysinga og flóð regnsins.
Yfir farveginum er heiði vetrarnætur eða sumardags, meðfram honum
ýmist öræfi eða gróin lönd.
Yrkisefnin eru flest islenzk. Séu þau erlend, svo sem Við Genesaret-
vatn, Sínaífjall o. fl., er viðhorf skáldsins alltaf þjóðlegt, og lesandann
grunar, að fyrir því vaki íslenzk örlög, íslenzk vandamál. Guð landsins,
tign þess og traust, fegurð, þjóðtrú og saga eru Davið alltaf efst í hug,
en um fram allt framtíð fólksins og sálarheill, þessa heims og annars.
Sjá t. d. kvæðin Er veðrið að hefjast, Gakk heill o. fl. Að dómi skáldsins
eru trúfesta, skyldurækni og ábyrgðartilfinning það eina, sem bjargað
getur heiminum. En til þess þarf endurfæðingu, jafnvel upprisu:
Hvi hlustar ekki mannkyn þreytt og þjáð
á þeirra orð, er sigrað hafa dauðann?
Hin innri bylting, blessun dauðlegs manns,
mun brautir ryðja, stækka veröld hans,
unz kynslóð frjáls i lífdögg ljóssins skirð
að lokum fagnar — upprisunnar dýrð.
1 stað tignunar og tilbeiðslu á æðri máttarvöldum hneigjast menn til
sjálfsdýrkunar og mikillætis.
En allir segja, að allt
sýni mannlegan mátt,
guð sé orðinn of gamall
og geti litið og fátt.
Menn voga og tapa
og villast og hrapa.
Eitt er að ætla sér mikið,
annað að skapa.