Skírnir - 01.01.1967, Side 92
P. V. G. KOLKA:
UM ÆVERLINGA.
a:
Landnám Ævars.
X Ævar hinn gamli, sonur Ketils helluflaga og Þuriðar, dótt-
ur Haralds konungs gullskeggs i Sogni, kom skipi sínu í
Blönduós og nam land í ofanverðum Langadal. Þetta mun
hafa verið seint á landnámsöld, því að þá eru sögð hyggð
öll lönd vestan Blöndu og ef til vill einnig í neðanverðum
Langadal, sem þá var talinn ná til sjávar. Þann hluta dals-
ins nam Holti og ef til vill Refasveit að Laxá. Það er þá
allur núverandi Engihlíðarhreppur, að Móbergi undanteknu.
Ævar helgaði Véfröði syni sínum Móhergsland, að sjálfsögðu
frá Hvammsskarði, og setti menn sína niður ofar í dalnum,
en bjó sjálfur í Ævarsskarði. Voru hin efri takmörk lands
hans við Grindarlæk, sem mun vera Gilslækur í Svartárdal
utanverðum, því að „grind“ í þessu sambandi þýðir senni-
lega klettagang eða haft, sem gengur þvert á árfarveg (Jónas
Illugason). Þetta er 16—17 km löng fjallshlíð ásamt nokkru
undirlendi, en með fylgdi fjalllendið „fyrir norðan háls“
eða Langadalsfjall ásamt Laxárdal ofanverðum og fjöllum
austur af, sennilega í miðjan Víðidal og Valbrandsdal, því
að í Jarðahók Árna Magnússonar og Páls Vidalíns eru Ref-
staðir í Laxárdal taldir vera byggðir úr Móbergslandi og
hafa átt land í Rauðagilsbotna á Víðidal. Austurtakmörkin
í Gönguskörðum fremri hafa verið í Vestara-Króksskarði, þar
sem landamerki Bólstaðarhlíðar eru enn í dag, nema Vatns-
hlíðarland hafi fylgt með, sem er öllu líklegra, og hafa þá
ráðið núverandi sýslumörk á Stóra-Vatnsskarði.
Förunautar Ævars bjuggu þröngt í Langadal, því að taldir
eru þar sex bæir þeirra í röð, þar sem nú hafa alllengi verið
fjórir, en að vísu hafa skriðuföll grandað byggð á tveimur.