Skírnir - 01.01.1967, Síða 126
124
Magnús Már Lárusson
Skírnir
Og enn voru svo hinar frjálsu borgir, sem og játuðu keisar-
ann sem yfirvald, en stóðu markvisst gegn furstanum.
Allt var á hverfanda hveli og í upplausn.
Bændastéttin var mikið til ánauðug, einkum í Norður-
Þýzkalandi, þar sem furstarnir voru voldugir, en í Suður-
Þýzkalandi var órói mikill í bændum. Kom þar iðulega til
l)lóðugra átaka, og er eftirtektarvert, að foringjar bænda voru
oft sveitaprestarnir. Þeir gátu ekki gert sér neinar vonir um
frama, frekar en bóndinn, þar sem öll æðri kirkjuleg embætti
voru í höndum aðals og fursta.
Þannig var þá ástandið 1517 mjög alvarlegt. Menn voru
haldnir sárri frelsislöngun burt frá hinu gamla lénsskipulagi.
Þessi tilfinning tók á sig trúarlega mynd. Meðal lærðra
manna tók frjálslyndur húmanismi Erasmusar Rotterodam-
usar og Reuchlins sér bólfestu, hófsemi og hugsanafrelsi, en
kaupmenn og bændur leituðu trúar, sem færði einstakling-
inn nær Guði og bryti niður kirkjuveldið. Menn leituðu til
heilagrar önnu og annarra dýrlinga til þess að öðlast greið-
færari leið til himna.
Þessi frelsislöngun birtist einnig í þjóðerniskennd, í ást til
Þýzkalands. Oft var því haldið fram, að Þýzkaland væri merg-
sogið af grönnum sinum og af alþjóðabankakerfinu, sem þá
var farið að bóla á. Gyðingar voru hataðir og oft illa leiknir,
sumpart af því, að þeir voru útlendir, sumpart af því, að það
voru örlög þeirra að vera ofsóttir, þegar menn vissu eigi fyrir
víst, hver væri orsök eymdar og óánægju sinnar.
1517 leituðu Þjóðverjar að einhverju þvi, sem gæti verið
einingartákn frelsis síns. Leitin stefndi í tvær áttir, og var
hvorug fullnægjandi. Annars vegar var keisarinn, sem naut
mikillar virðingar og var hið eina, sem sameinaði þjóðina.
Ríkisriddararnir og borgirnar litu á hann sem hinn eðlilega
verndara sinn gegn furstunum. Háklerkarnir litu einnig á
hann sem verndara sinn, því hann var hinn smurði kirkj-
unnar. Og bændurnir játuðu honum ætíð hollustu, því þann
veg losuðu þeir sig við kúgara sína. Hins vegar var almennt
hatur í garð kirkjuveldisins; þó ekki hatur, sem beindist gegn
kristninni eða hinum óbreytta presti, heldur gegn kirkjuhöfð-