Skírnir - 01.01.1977, Blaðsíða 8
SKÍRNIR
6 KRISTJÁN ÁRNASON
hann átti og gerð hefur verið skrá yfir. En til að fá svar við því,
er hætt við, að við þyrftum að leita til þeirra sjáenda er þykjast
kunna að skima aftur í tímann, jafnvel aftur til sautjándu aldar.
En í stað þess að fara út í slíka eltingaleiki, væri ef til vill nær-
tækara að gera vöntun grískra mennta að umhugsunarefni og
að reyna að rekja ástæðurnar fyrir henni og glöggva sig á þeim
áhrifum sem þessi vöntun hefur haft á okkar menningu. Það
verður hinsvegar aðeins gert með hliðsjón af stöðu og gildi þess-
ara fornmennta með öðrum þjóðum og á öðrum tímum en þeim
er við lifum nú á.
Saga þessara áhrifa grískra mennta á aðrar þjóðir hefst raunar
aftur í fornöld. Á tímabili hellenismans nær grísk menning langt
út fyrir landamæri hins eiginlega Grikklands og verður samein-
ingarafl meðal margra ólíkra þjóða. Þegar svo Rómverjar taka
forystu, hljóta þeir að tileinka sér hinar forngrísku menntir,
taka Grikki sér til fyrirmyndar á flestan hátt, jafnvel á kostnað
eigin sérkenna, ekki endilega af því að þá hafi skort svo mjög
frumleika, heldur hinu, að stjórnmálaleg og menningarleg for-
ysta hljóta að fara saman, og þannig verður sá samruni grísks
og rómversks sem af þessu hlýzt einskonar andlegur bakhjarl
hins rómverska heimsveldis. Hugtakið „humanitas", sem fram
kemur hjá rómverskum menntamönnum á gullöld Rómar, felur
í sér það sem verður grundvöllur húmanisma á öllum tímum
síðan og er andstæða þess sem mætti kalla „barbarisma“ eða
þjóðlegs durtsháttar. Það felur í sér hvatningu til að líta út fyrir
nánasta stað og líðandi stund og missa aldrei sjónar af því sem
er sígilt og varanlegt og jafnframt kröfu um að kryfja hlutina
til mergjar hleypidómalaust, á þann hátt sem Grikkir hafa gefið
bezt fordæmi fyrir. Því fordæmi fylgdu þeir Rómverjar sem
lengst náðu, og það er fyrir þeirra atbeina, að Rómaveldi verður
einskonar tengiliður milli forngrískra mennta og síðari tíma.
Með falli Rómaveldis og öðrum þeim atburðum er marka
upphaf miðalda skapast ný viðhorf til grískra mennta, ekki þó
þannig, að þær séu með öllu gleymdar eða látnar liggja í lág-
inni, heldur fá þær gjörólíkt hlutverk, er fram líða stundir.
Stefna miðalda er auðvitað ekki sú að varðveita hið forna og
„sígilda" né að festa það í sessi, heldur að móta annan heim á