Skírnir - 01.01.1977, Blaðsíða 11
SKÍRNIR GRÍSKAR FORNMENNTIR Á ÍSLANDl 9
(t.d. Trór=Þór). Þótt margt sé nokkuð ævintýralegt í þessum
fræðum bendir aftur annað til þess, að einhvers staðar séu
klassískar heimildir að baki, til dæmis kemur ættartala Dardan-
unga fullkomlega heim við það sem stendur í Ilíonskviðu.
Hómer þekktu menn að sjálfsögðu ekki hér fremur en annars
staðar í Vestur-Evrópu í frumgerð sinni, en hinsvegar var til
latneskur útdráttur Ilíonskviðu, hinn svonefndi Homerus Lat-
inus. Önnur meginheimild um Trójustríðið og aðra atburði
grískrar sögu var hin svonefnda Historia Daretis Phrygii de ex-
cidio Troiae, en það er latnesk gerð rits, sem upphaflega hefur
verið samið á grísku. Hinn gríski höfundur hefur auðsjáanlega
viljað skjóta sjálfum Hómeri ref fyrir rass og lagt allt kapp á
að vera tekinn trúanlegur, því hann eignar verkið sjónarvotti
að atburðinum, sem er Dares nokkur hofgoði í Tróju hinn frýg-
verski, og þykist því jafnvel geta sagt til um mannfall í liði
beggja stríðsaðila með tölum, sem standa að vísu á þúsundi.
Manntjón Grikkja á að hafa verið hvorki meira né minna en
886.000 manns, en Tróverjar sluppu með 676.000. í stað þess
að takmarka sig við lítinn hluta Trójustríðsins, eins og Hómer
gerir, rekur hann alla atburði frá upphafi til enda, og byrjar
raunar á för Jasonar eftir gullna reyfinu, og í ýmsum atriðum
er verkið í beinni mótsögn við Hómer, svo sem í frásögninni
um sjálfa reiði Akkillesar og fall Patróklosar.
Þetta verk, sem er einnig til í fornþýzkri gerð og fornfranskri,
verður meginheimild fyrir hinni íslenzku Trójumannasögu,
enda er þar óspart vitnað í „meistara Dares“. Hinsvegar er ljóst,
að Trójumannasaga er einnig byggð á öðrum heimildum, enda
byrjar hún á að segja, eins og raunar Snorri, frá Satúrnusi og
syni hans Júpíter, áður en komið er að aðalefninu, auk þess
sem frásögnin um reiði Akkillesar kemur fremur heim og saman
við Ilíonskviðu en Dares. Um fall Trójuborgar þykja ekki duga
minna en tvær ólíkar frásagnir og er hin fyrri samkvæmt riti
„Daresar", þar sem þeir Antenór og Eneas eru látnir svíkja
Príamus og opna borgarhliðin, en hina, sem er sagan um Sínon
og Trójuhestinn, eignar höfundurinn Rómverjum, enda er hún
í samræmi við það sem stendur í annarri bók Eneasarkviðu
Virgils. Af öðrum bókum frá miðöldum, sem fjalla um grísk