Skírnir - 01.01.1977, Blaðsíða 153
SKÍRNIR
ÓLAFUR CHAIM
151
Spáni og í Portúgal og sigldu inn í Miðjarðarhaf. Mest kynni
höfðu þeir á þessum ferðum af Galisíu (Galizulandi) á norð-
vesturhorni Spánar.77 Síðustu víkingana, sem til Galisíu komu,
má kalla Ólaf konung helga78 og Úlf jarl í Danmörku (Galizu-
Úlf)79 á fyrra hluta 11. aldar.
Ferðir norrænna manna til Íberíuskaga lögðust ekki af, þótt
víkingaferðum linnti á 11. öld. Árið 1096 hófust krossferðir
til Landsins helga, og tóku norrænir menn þátt í þeim. Megin-
straumur evrópskra krossfara lá landleiðina suður álfuna að
höfnum við Miðjarðarhaf, en sökum siglingahefðar norrænna
manna og þekkingar þeirra á vesturvegi lá einna beinast við
fyrir þá að halda sjóleiðis til Jórsala vestur fyrir Íberíuskaga.
Á 12. og 13. öld beittu ýmsir norrænir höfðingjar sér fyrir slík-
um ferðum, og mætti kalla þær einskonar víkingaferðir með nýju
sniði. Þegar í fyrstu krossferð er getið um ferð flota frá Norður-
sjó inn um Njörvasund, m. a. frá »Tyla« (þ.e. Thule)80 og »Ang-
lia et aliis insulis Oceani«.81 Litlu síðar, árið 1102, sigldi Skofti
Ögmundarson á Gizka á Sunnmæri inn í Miðjarðarhaf á fimm
langskipum, en hann lézt í Rómaborg.82 Þessi för Skofta varð
tilefni krossferðar Sigurðar Jórsalafara 1108— ll83 með sextíu
skipa flota til liðs við Baldvin I Jórsalakonung. Á suðurleið
hafði Sigurður vetursetu á Galizulandi.84 í þessari för var a. m.
k. einn íslendingur, Hermundur Þorvaldsson frá Vatnsfirði, er
að sögn Þorgils sögu og Hafliða fór suður með Jórsala-Sigurði
ásamt félaga sínum, Árna fjöruskeif, er síðar dvaldist á íslandi.85
Fjórum árum eftir hina misheppnuðu aðra krossferð (1147—
48) sigldu Rögnvaldur kali Kolsson Orkneyjajarl, Erlingur
skakki jarl og margir höfðingjar aðrir úr Orkneyjum með miklu
liði á fimmtán stórskipum til Jórsala og Miklagarðs. Þeir dvöld-
ust um jólin á Galizulandi og herjuðu síðan víða um Spán
heiðna.86 Með Rögnvaldi fóru tvö íslenzk skáld, svo að getið sé,
Oddi litli Glúmsson, breiðfirzkur maður, og Ármóður.87
Eftir fall Jórsala 1187 reis ný krossfaraalda í Evrópu, og lagði
mikið lið af stað í þriðju krossferð (1189—92) undir forystu
Friðriks Barbarossa, Filippusar II Ágústs og Ríkharðs ljóns-
hjarta. Norrænir menn tóku drjúgan þátt í þessari krossferð,
og er getið í ítalskri heimild um »Dani, Northmanni, Gothi,