Skírnir - 01.01.1977, Síða 220
218
RITDÓMAR
SKÍRNIR
banka. Um slík orð segir MP: „Nútímaíslenska sunnanlands og vestan hefur
órödduð nefhljóð... á undan p t k í innstöðu" (bls. 40). Þetta er rétt svo
langt sem það nær, en af hverju kallar MP innstæðu lokhljóðin í kempa,
henta, banka p, t, k, þegar hann talar um sunnlenskan framburð? Sam-
kvæmt skilgreiningu hans eru þau í þeim framburði alveg eins og sam-
svarandi lokhljóð í kemba, henda, banga, þ.e. órödduð og fráblásturslaus.
Því þá ekki að kalla þau b, d, g? Ekki getum við verið svo óvísindaleg að
láta stafsetninguna ráða þessari nafngift. Hér er nauðsynlegt að grípa til
hljóðkerfisfræðilegra raka, og þá er um leið hægt að svara því, hvers vegna
nefhljóðin afraddast ekki í kemba, henda, banga í framburði neins. En MP
hefur engin tök á að gefa slíka skýringu, og þess vegna verður umfjöllun
hans um þetta atriði laus í reipunum og lítt til þess fallin að auka skilning.
Svipað verður uppi á teningnum, þar sem MP fjallar um aðblástur. Þann-
ig er það vafalítið rétt hjá honum, að aðblásturshljóðið er að jafnaði álíka
langt og önnur málhljóð og þannig mun lengra en fráblástur. Þar sem að-
blásturshljóðið er oftast eins og raddbandaönghljóðið h að hljóðgildi, er
eðlilegast að hljóðrita það eins og h. Loks benda mælingar MP, Söru Garnes
og mínar eigin til þess, að lokhljóðið á eftir aðblæstrinum sé ekki langt,
eins og áður var oft talið. Ályktun sína af þessu orðar MP svo: „Öll rök
mæla með því að telja aðblásturinn svokallaða einfaldlega samhljóðann [h]“
(bls. 38) og „Hugtakið aðblástur er ónauðsynlegt í íslensku og gæti að skað-
lausu horfið úr hljóðlýsingu íslensks máls“ (bls. 39). Ef MP á hér aðeins
við hreina hljóðfræðilega lýsingu á myndun málhljóða í framburði ein-
stakra orða, er ekkert við þetta að athuga. En af hverju „kemur þetta fyrir-
bæri [aðblásturinnj fyrir í orðum stafsettum með -pp-, -tt-, -kk- og p, t, k
+ l, n“ (bls. 37)? Við þeirri spurningu veitir hljóðfræðin engin svör. Nánari
athugun leiðir hins vegar í Ijós, að um aðblásturinn gilda reglur, sem eru
ennþá lifandi i málinu — þ.e. hann kemur alltaf og aðeins fram, þegar til-
tekin hljóðasambönd koma upp. Þannig fáum við aðblástur, ef beygingar-
endingu, sem hefst á t, er bætt við stofn, sem endar á t, þannig að upp
kemur -tt- (bæta, bætti), eða ef beygingarending, sem hefst á sérhljóða,
veldur brottfalli í viðskeyti, þannig að hin tilteknu skilyrði skapast (opin,
flt. opnar). Frá sjónarmiði hljóðkerfisfræðinnar er aðblásturinn því ekki
„sjálfstætt samhljóð", þ.e. ekki sjálfstætt fónan (hljóðungur), heldur kemur
hann aðeins fram við tiltekin skilyrði og er þannig „tilheyrandi eftirfarandi
lokhljóði" eða háður því. Þess vegna má vel halda áfram að kalla hann að-
blástur, og frá sjónarmiði hljóðkerfisfræðinnar væri raunar villandi að
gera það ekki.
Nú kann einhver að segja sem svo, að óréttmætt sé að gagnrýna MP
fyrir atriði, sem snerta fremur hljóðkerfisfræði en hreina hljóðfræði. Það
væri réttmæt athugasemd, ef MP slægi einlivers staðar þann varnagla, að
hann væri aðeins að lýsa framburði hljóða og önnur lögmál kynnu að gilda
í hljóðkerfisfræðinni. Það gerir hann hins vegar ekki, og þess vegna kynnu
menn að álykta, að það, sem hann segir, hafi miklu almennara gildi en það