Skírnir - 01.01.1977, Blaðsíða 222
220
RITDÓMAR
SKÍRNIR
varastöðu þessara hljóða (bls. 67), er ekki annað að sjá en tungubroddurinn
nemi við bitflöt efri framtanna (þótt það sé óskýrt á einni mynd). Hið
sama virðist mér við athugun á eigin framburði og þegar ég bið aðra að
bera þessi hljóð fram fyrir mig. Það er líka í samræmi við þá lýsingu, sem
tíðkast hefur í flestum ritum um ísl. hljóðfræði til þessa, eins og MP
rekur reyndar I grein sinni um þetta efni (Phonetica 23, 1971). Ég hef því til-
hneigingu til að álíta, að annaðhvort hafi vélamenningin blekkt MP þarna
með einhverjum hætti, eða þá að hljóðhafi hans myndi }> og ð á annan hátt
en þeir, sem flestir aðrir hljóðfræðingar hafa athugað. Einkennilegast er
þó, að í bók þeirri, sem hér er til umræðu, getur MP þess að engu, að menn
hafi áður haldið, að þ og 8 væru tannmælt. Þó er kenning hans sjálfs í raun-
inni byggð á athugun röntgenmynda af framburði eins manns. Slíkar nið-
urstöður er ekki einungis leyfilegt að tortryggja, heldur ber mönnum bein-
línis fræðileg skylda til þess, eins og allt er í pottinn búið.
Nokkur frávik frá eldri kenningum er einnig að finna í kafla MP um
myndun íslenskra sérhljóða. Ég mun ekki fjölyrða um þau, því að tals-
verður munur getur verið milli einstaklinga á tungustöðu við framburð
tiltekins sérhljóðs. Það leiðir af því, sem áður er sagt um eðli sérhljóða.
Rétt er þó að benda á, að sérhljóðaþríhymingur sá, sem oft hefur verið
notaður, sýnir flokkun eftir hæsta punkti tungunnar í munninum, en tafla
MP á bls. 49 miðast við „mestu öng í munnholi", þar með talið kok. Því
er ekki alls kostar réttmætt að bera hana saman við sérhljóðaþríhyrninginn,
enda fær MP mynd, sem er miklu líkari sérhljóðaþríhyrningnum, þegar
hann miðar við hæstu stöðu tungubaksins (bls. 49—50). Segja má þó, að
flokkun MP í töflunni á bls. 49 sé nákvæmari en sérhljóðaþríhyrningurinn
gamli, þar sem hún sýnir, að a er ekki einungis fjarlægt — þ.e. tungubakið
er langt frá gómi — heldur myndast líka þrengsli í koki við framburð þess,
og það ræður trúlega miklu um hljómblæinn.
Loks skulu hér talin nokkur smærri atriði, þar sem mér þykir gæta
ónákvæmni eða óskýrleika.
Notkun MP á orðinu hljóS er mér talsverð ráðgáta. A bls. 16 segir, að orðið
sé tvírætt, því að það geti ýmist merkt hljóðsveiflurnar eða þá „stöðu tal-
færanna sem nauðsynleg er til að mynda ákveðnar hljóðsveiflur". Síðari
merkingin kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir, og víst er um það. að
hvorug þeirra dugir til að skýra setninguna ,„ sama“ hljóð er ólíkt skilgreint
í ólíkum málum" (bls. 13). Þar virðist helst vera um að ræða merkinguna
„samsvarandi fónan" eða þ.u.l., og erum við þá enn komin að þessu óskil-
greinda samkrulli hljóðfræði og hljóðkerfisfræði, sem hvað eftir annað
gerir framsetningu bókarinnar þokukennda. Þannig er t. d. sagt um mynd-
unarstaði á bls. 20: „Ekkert eitt tungumál virðist hafa alla þessa myndunar-
staði.“ Líklega er þar átt við, að ekkert eitt tungumál noti alla myndunar-
staðina á kerfisbundinn hátt til að greina á milli málhljóða. En síðan segir:
„T.d. getur hágómmælt í einu máli verið hið sama og gómfillumælt í öðru“
(bls. 20—21), og þá er ekki lengur ratljóst í þokunni.