Skírnir - 01.01.1977, Blaðsíða 10
8
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
ekki haft þann sið að flíka lærdómi, og kynnu margir að vilja
óska þess, að þjóðin hefði sýnt slíka hógværð í einhverju öðru.
En hvað sem því líður, þá er Snorri Sturluson næsta fáorður
um það, í hverju hún felist hin „andlega spektin" sem hann
teflir fram gegn goðsögulegum hugmyndum fornmanna um
upphaf heimsins, en þar má raunar ætla að Snorri hafi í huga
kristnar hugmyndir um guðlega sköpun úr engu.
En sú speki sem Snorri rekur í Prologus að Eddu og byggist
á „jarðligri skilningu" er að sjálfsögðu lítið í ætt við skólaspeki
miðalda, en ber hinsvegar að vmsu leyti keim af hinni forn-
grísku náttúruspeki sem var ríkjandi fyrir daga Sókratesar.
Túlkun Snorra á frásögn Vafþrúðnismála um upphaf lífsins úr
„blæ hitans“ er mætti „hríminu" er keimlík kenningum Empe-
dóklesar um hinar fjórar höfuðskepnur og blöndun þeirra eða
kenningum Herakleitosar um baráttu andstæðnanna. Þetta og
ýmislegt annað í Eddu, svo sem kenningar Snorra um náttúr-
legan uppruna trúarbragða, er að mörgu leyti nær hugsunar-
hætti seinni tíma en þenkimáta miðalda, enda vill Sigurður
Nordal líta á Snorra sem einhvers konar fyrirrennara upplýs-
ingarmanna seinni tíma eins og Lessings og Voltaires í þessu
tilliti.1 Með sama rétti mætti sjá í Snorra eftirmann þeirra sóf-
ista eða vizkukennara grískra, er á sínum tíma urðu að lúta
fyrir ægivaldi Platons og Aristótelesar, því sumir þeirra höfðu
á reiðum höndum nokkuð áþekkar skýringar á uppruna trúar-
bragða, og Platon lætur til dæmis Sókrates skopast að goðsagna-
skýringum af þessu tagi í Faidrosi, því hann telur þær grunn-
færnislegar.
Sá háttur Snorra hinsvegar að túlka guðina sem forna höfð-
ingja er í samræmi við kenningar Evhemerosar hins gríska er
uppi var á þriðju öld fyrir Krists burð. Þessar kenningar munu
hafa verið kunnar í Evrópu á miðöldum, og er það getgáta
Heuslers að Snorri hafi þær frá Ara fróða, en Ari aftur frá
Sæmundi, er hafi kynnzt þeim suður í Frakklandi. í þeim anda
er og það uppátæki Snorra að blanda saman ættum Ása og
Trójumanna, auk þess sem í því felst viðleitni til að sameina
norrænan sagnaarf hinum suðurevrópska, eins og kemur fram
í því hvernig Snorri vill láta norræn nöfn samsvara hinum grísku