Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Qupperneq 51
A ð l e s a T í m a n n o g va t n i ð I I
TMM 2012 · 4 51
eigi að vera merkingarlaust. Það getur til dæmis fjallað um tilfinningar og
vakið geðhrif. En það á ekki að segja heldur sýna. Til að rekja veraldarsögu
sorgarinnar á að sýna auða dyragætt og laufblað af hlyni. Og um ástina
gildir slíkt hið sama: Það á ekki að tala um hana heldur sýna strá sem hjúfra
sig og tvö ljós yfir hafinu. Og ljóð á ekki að vera satt, trúverðug eftirlíking
veruleika, heldur jafngildi hans, sjálfstæður veruleiki. Það er víst eins gott að
þeir sem hneyksluðust hvað mest á lokalínunum sem Steinn hafði að ein-
kunnarorðum sáu hinar aldrei. En hvað þýða lokalínurnar? Hvernig ber að
skilja þær og hvaða hlutverki gegna þær?
Ef til vill er ekki fjarri lagi, í fyrstu lotu að minnsta kosti, að líta á þær sem
ákall: Æ, mættum við biðja um ljóð sem eru öðruvísi en þau sem við höfum
einkum vanist! Og skáldið dregur í myndlíkingum fram ýtrustu andstæður
hinna háværu, sjálfumglöðu, afskiptasömu ljóða.
Hér á landi virðast lokalínurnar þó yfirleitt hafa verið skildar á þá leið
að ljóð ætti ekki að merkja neitt, það ætti einungis að vera, vera ljóð. Sá
skilningur kom til dæmis glöggt fram hjá Hannesi Péturssyni í stuttri grein,
„Aftur fyrir málið“, sem hann skrifaði um Tímann og vatnið 1969 og er hvöss
gagnrýni á slíka stefnu í skáldskap.3 Gagnrýni hans er fróðleg og vert er að
skoða hana lítillega. Tekið skal fram að mér er ókunnugt um hvort álit hans
á ljóðaflokknum er enn hið sama; greinin er hér einungis höfð til marks um
viðbrögð mikilsmetins skálds á þeim tíma þegar hún var skrifuð. Einnig er
rétt að hafa í huga að dóma skálda um skáldskap skyldi öðrum þræði líta
á sem stefnuskrá þeirra sjálfra, og má reyndar kalla greinina óvenjuskýrt
dæmi um það.
Hannes Pétursson viðurkennir í fyrrnefndri grein, með nokkrum semingi
þó, að „merkingarlaus“ ljóð geti átt sér tilverurétt „ef þau eru haglega gerð
og lesandinn lætur vera að leita merkingar í þeim“, en þau hljóti þó alltaf að
vera „sníkjudýr“ á málfarslegri merkingu:
[L]jóð sem ekkert á að merkja fyrir lesandanum, aðeins vera „það sjálft“, lifir – undir
niðri – á þeirri merkingu sem fyrir er í málinu: nærist á misræminu sem verður milli
orðanna eins og þeim er beitt í ljóðinu og þeirrar merkingar sem fyrir er í sömu
orðum. Merkingin sem ljóðið hafnar er þannig (í felum) líftaug þess.
Nokkuð óvarlega virðist talað hér um þá „merkingu sem fyrir er í málinu“
eins og það sé fyrirfram gefin og föst stærð. Sú athugun er þó laukrétt að
einnig ‚ljóð án inntaks‘ – ef hafa mætti þau orð um fyrirbærið; nákvæmara
væri ‚ljóð án umritanlegs inntaks‘ eða ‚ljóð án vísunar til kunns veruleika‘
– slík ljóð eru af orðum gerð og orð halda alltaf einhverju af tákngildi sínu
og tilfinningamætti, það er forsenda þessara ljóða. Rétt er sömuleiðis að
þau nærast á misræmi sem verður milli orðanna eins og þeim er beitt í
ljóðunum og hversdagslegrar merkingar (prósamerkingar) sömu orða, en
hefur það ekki löngum verið aðal góðra ljóða?4 Sá fordæmingartónn sem
kemur til dæmis fram í orðinu „sníkjudýr“ er hinsvegar hæpinn. Að yrkja