Hugur - 01.01.2015, Síða 31
Hugtökin búa í hjarta okkar 31
Túlkunin eins og ég skilgreindi hana áðan er fólgin í því að reyna að skýra og
gera betur skiljanlega einhverja hugsun eða merkingu sem er tjáð í ákveðinni
orðræðu og setja hana fram í annarri orðræðu sem gerir hana skiljanlegri, þannig
að það sem túlkunin snýst um er skilningur. Hvað er þá skilningur? Skilningur
í almennri merkingu þess orðs er fólginn í greiningu, þar sem þú greinir hlutina
niður í ákveðna þætti þannig að þú náir ákveðnu valdi yfir þeim í huga þínum
og getir sagst skilja þetta og svo getur þú útlistað skilning þinn. Málið er það að
skilningurinn er eitthvað sem þróast og er sífellt að þróast, við erum alltaf að skilja
hlutina upp á nýtt og ekki nóg með það, heldur hvílir skilningur okkar á ákveðn-
um forsendum sem okkur eru ekki endilega ljósar eða við þekkjum ekki. Sá heim-
spekingur sem hefur gert þetta hugtak, forskilning, að mjög merkilegum þætti í
heimspeki sinni er Martin Heidegger sem fjallar um þetta hugtak í bók sinni Vera
og tími eða Sein und Zeit og gerir þetta að lykilhugtaki í túlkunarfræðinni. Grein-
ing Heideggers á forskilningnum, sem er á þýskunni Vorverständnis, er þríþætt,
hann talar um Vorhabe, það sem maður hefur fyrirfram. Ég myndi túlka það í
víðum skilningi þannig að skilningur okkar sem hvílir þá á ákveðnum forskilningi
er háður ákveðnum menningarhefðum, það er ákveðinn skilningur sem liggur í
okkar hversdagslega máli, þegar við lærum tungumálið þróum við ákveðinn skiln-
ing sem er órofa hluti af menningu okkar almennt. Næsta hugtak sem Heidegger
notar til að átta sig á forskilningnum er það sem hann kallar á þýskunni Vorsicht
sem ég myndi túlka sem ákveðið sjónarmið eða sjónarhorn. Maður horfir alltaf
á hlutina undir ákveðnu sjónarhorni eða hefur ákveðið sjónarmið til þess sem
maður er að reyna að skilja. Loks í þriðja lagi talar Heidegger um Vorgriff, það er
eiginlega hugtakið. Griff þýðir grip (af greifen = grípa, ná taki á) og af því er leitt
orðið Begriff sem er hugtak. Þarna erum við komin með þrjú atriði sem við getum
haft í huga þegar við erum að velta vöngum yfir okkar eigin forskilningi. Hver er
hann, hver er menningarhefðin, hver eru sjónarmiðin sem eru gefin, sem við erum
alin upp við, sem eru mótuð og síðast en ekki síst hvaða vald höfum við á hug-
tökunum sem um er að ræða? Síðan snýst málið um það að skilningur okkar sem
byggist á þessum forskilningi á að þróa þennan forskilning, þ.e.a.s. við eigum að
vera gagnrýnin á okkar eigin hefðir, á hugtök okkar og vera hugsanlega reiðubúin
til að endurskoða eða móta ný viðhorf, nýjar hefðir og ný hugtök.
Það er þá þannig að þegar maður er að reyna að túlka, segjum skrif annarra, þá er
maður sífellt um leið að yfirvega sinn eigin forskilning og reyna að átta sig á því
hvaðan maður er að koma sjálfur og þetta verður einhvers konar samræða?
Já, það sem skiptir höfuðmáli er kannski ekki hvert efnið er sem um er að ræða.
Við gætum til dæmis verið að tala um túlkun tilverunnar yfirleitt. En við erum
núna að tala fyrst og fremst um túlkunarfræði sem túlkun á orðræðu. Spurningin
er þá um hvað tiltekin orðræðan snýst. Þá er spurningin, hver er skilningurinn,
forskilningurinn á viðfangsefninu, hvað ertu búinn að læra mikið í sögunni, hvað
veistu mikið um lögin, hvað veistu um Biblíuna ef við erum að tala um hana, hvað
veistu mikið um þessar tegundir af bókmenntum og svo framvegis. Það verður
lykilatriði um hvað málið snýst, hvað það er sem við viljum öðlast skilning á.
Hugur 2015-5.indd 31 5/10/2016 6:45:02 AM