Hugur - 01.01.2015, Síða 51
Líkamlegar hugverur 51
Fyrirbærafræði og efnishyggja
Fyrirbærafræði Husserls er að miklu leyti skrifuð til höfuðs natúralisma og efnis-
hyggju (e. physicalism) samtíma síns. Husserl fullyrðir að með Galíleó Galíleí hafi
orðið til ný heimsmynd, heimsmyndin um hinn mælanlega heim og að um leið
hafi stærðfræðilegar eða eðlisfræðilegar nálganir á sannleikann orðið að hinu eina
sanna viðmiði.
Heimspekin stendur skrifuð í hina stórkostlegu bók sem stendur æv-
inlega opin fyrir sjónum okkar (ég á við alheiminn). En bókin verður
ekki skilin nema við lærum fyrst að skilja tungumálið og þekkja stafina
sem þar standa. Hún er samin á máli stærðfræðinnar og bókstafirnir eru
þríhyrningar, hringir og aðrar myndir rúmfræðinnar. Án þeirra er ekki á
mannlegu valdi að skilja eitt einasta orð í bókinni – án þeirra ráfa menn
um í myrku völundarhúsi.10
Husserl er þeirrar skoðunar að með þessari heimsmynd sem verður til með skiln-
ingi Galíleós á heiminum hafi hafist stærðfræðivæðing heimsins sem ekki sér
fyrir endann á. Með þessari stærðfræðivæðingu hafi menn hafist handa við
að klæða heiminn í hugmyndaklæði hinna stærðfræðilegu eða eðlisfræðilegu
hugmynda. Í Krisis fullyrðir Husserl að „fyrir vísindamanninn og menntafólk
almennt“ þá standi þessi hugmyndaklæði „fyrir lífheiminn, þau klæða hann upp
sem „hlutlægt séð raunverulega og sanna“ náttúru“.11 Í stað þess að líta á þessi
klæði sem aðferð sem gagnleg sé til þess að fræða okkur um ákveðin svið heimsins
og til rannsóknar á honum þá höfum við tekið þessum aðferðum sem heimin-
um sjálfum. „Það er í gegnum hugmyndaklæðin sem við höfum fallist á að sjá
sem raunverulega veru heimsins, það sem er í raun aðeins aðferð.“12 Tvíhyggju
Descartesar sér Husserl sem beina afleiðingu af þessari heimsmynd, þar sem and-
anum hafði verið úthýst úr veruleikanum.13
Innan þessarar heimsmyndar er hið sálræna fyrst og fremst skilið í ljósi lík-
amsgervingar hins sálræna – hins sállíkamlega. Hið sálræna er þá staðsett í hlut,
líkamanum, sem er hlutur meðal annarra hluta, sem bregst við áreiti á flókinn
hátt, en er fyrst og fremst hluti af hinum mælanlega heimi.
Meðvitundinni – fyrstu persónu sjónarhorninu – er þannig fundinn staður sem
einhvers konar viðbót, yfirlagi, sem er ekki nauðsynlegt fyrir skilning okkar á
heiminum eins og hann er í raun og veru. Husserl er það hins vegar mikið hjart-
ans mál að draga fram mikilvægi fyrstu persónu sjónarhornsins.
10 Galíleó Galíleí í Þorsteinn Vilhjálmsson, 1987: 163.
11 Husserl, 1970: 51.
12 Sama.
13 Husserl beinir spjótum sínum oft að Descartes, en það skal tekið fram að hann fer heldur ekki
leynt með skuld sína gagnvart honum, sem sést ekki síst á titli bókar hans: Kartesískar hug-
leiðingar.
Hugur 2015-5.indd 51 5/10/2016 6:45:07 AM