Hugur - 01.01.2015, Page 78
78 Sigríður Þorgeirsdóttir
sem brjótast um í okkur. Gendlin er skólaður í fyrirbærafræði sem vísindalegri
aðferð sem felst m.a. í því að tæma hugann af hversdagslegum og vísindalegum
dómum um hugtök og fyrirbæri til þess að geta nálgast þau á ferskan hátt.
Við höfum í heimspeki að einhverju leyti tapað heild hugsunar, tilfinninga og
athafna. Við þurfum að tengjast raunverulegri reynslu okkar og ekki einungis
yrðingum á reynslu. Hugtök, jafnvel hin sértækustu hugtök, þurfa einnig að finna
sér hljómgrunn í sjálfum okkur. Þau verða okkur þannig raunverulegri og auðugri.
Kynið sjálft er orsakaþáttur í líkamlegri hugsun vegna þess að það er ógerlegt að
hugsa án þess að vera í kyni, hvers kyns sem það nú er. Og líkast til hefur kynið
jafn margbreytilegar myndir og við erum mörg. Kyn hefur þannig áhrif á hvernig
við skynjum veruleikann og hendum reiður á honum fyrir tilstilli tungumálsins.
Irigaray hefur stundað málvísindalegar rannsóknir á blönduðum hópum, á ólík-
um aldri, af mismunandi menningaruppruna og með ólíkan samfélagslegan bak-
grunn. Niðurstöður þeirra rannsókna benda til þess að það má merkja kynjamun
í málnotkun.37 Það er kynsjálfsmyndin sem miðlar milli náttúru og menningar
og tengir okkur við náttúrulegar forsendur okkar. Það er með ólíkindum hvað
við erum enn oft ónæm á hve mannskilningur heimspekihefðarinnar er karlleg-
ur. Þetta verður kona vör við þegar hún situr undir heimspekifyrirlestrum þar
sem dæmin sem tekin eru koma flest úr heimi karla, hvort sem það er vísun í
fótboltalið eða lakkið sem var rispað á nýja bílnum. Að dæmi sem þessi séu jafn
algeng og raun ber vitni bendir til einsleitni eða hóphugsunar í greininni, sem
líkamleg hugsun af þeim toga sem hér hefur verið kynnt gæti unnið bug á vegna
þess að hún styrkir einstaklinga í sjálfstæðri hugsun. Viss stig veruleika þess sem
við skynjum hafa hugsanlega ekkert með kyn að gera. Engu að síður er kynið
mikilvæg uppistaða í hugsun okkar. Sem kyn búum við yfir ólíkum styrk, sem
birtist oft í mismunandi áhuga, sem útilokar ekki skaranir. Að fílósófera sem
kona, verandi kona, felur ekki í sér uppskrift að því hvernig eigi að hugsa. Leah
Dawson sem talar um að konur finni sig á brimbrettum setur ekki reglur um
hvernig konur eigi að sörfa. Miklu fremur bendir hún á þá staðreynd að þær séu
að skapa sér stíl og áherslur sem henti þeim, leyfi þeim að njóta sín. Eitt sinn er
ég fjallaði um þetta í heimspekifyrirlestri spurði karlheimspekingur mig hvort ég
vildi að karlar og konur skiptu liði í heimspeki og fílósóferuðu sitt í hvoru lagi
sem kyn. Það er hægt að gera það í keppnum í brimbrettaíþróttinni. Heimspekin
er sammannleg iðja sem þrífst og dafnar á fjölbreytileika sjónarhorna. Það vantar
í hana meiri kvenlega visku.
Heimildir
Beauvoir, Simone de. 1949/2010. The Second Sex. New York: Knopf.
Butler, Judith. 1990. Gender Trouble. Feminism and the Subversion of Identity. New
York/London: Routledge.
Eugene T. Gendlin. 2004. „Introduction to ‘Thinking at the Edge’”, aðgengilegt hér: http://www.
focusing.org/gendlin/gol_all_index.asp
37 Irigaray, 2007.
Hugur 2015-5.indd 78 5/10/2016 6:45:14 AM