Norðurljósið - 01.01.1971, Síða 66
66
NORÐURLJÓSIÐ
Gallarnir hennar Noru voru ekki fáir, en þeir hurfu í skugga góðs
skaplyndis hennar og ennþá betra eðlisfars. Ekkert var svo erfitt,
að hún vildi ekki gera það fyrir aðra. Aukaverk, sauma og alls
konar greiða gerði Nora.
„Þú lætur alla níðast á greiðvikni þinni,“ hafði Valda sagt við
hana.
„Mér þykir gaman að gera fólki greiða,“ var svarið. Noru hafði
aldrei komið til hugar, að nokkur væri svo auvirðilegur að vilja
hagnast á greiðvikni hennar. Hún gat heldur ekki séð, að nokkur
gæti haft hagnað af henni.
Vegir þeirra skildu, þegar Nora hafði lokið inntökuprófi í há-
skóla. Valda mundi, hve illa henni féllu fréttirnar, þegar Nora sagði
þær:
„Ég hefi alltaf vitað, að ég yrði að hætta, þótt ég nefndi það
ekki,“ sagði hún sem trúnaðarmál. „Fjölskylda mín er ekki mjög
vel efnum búin, og það hefir verið erfitt fyrir hana að senda mig
hingað. Næsta ár fer Kevin í menntaskóla og Ian og Joy koma þar
fljótt á eftir. Það er þetta, sem er verst við að vera fyrst í stórri
fjölskyldu,“ sagði hún brosandi. „Sá verður alltaf að víkja fyrir
hinum næsta.“
„Hvað ætlar þú að taka þér fyrir hendur?“
„Markmiðið er að kenna.“ Sólskinsskap Noru bar hana yfir allar
torfærur. „En ég er of ung til að fara í kennaraskóla svo að ég ætla
að vera sjúkraliði í eitt ár.“
„En Nora, ó, Nora, starf sjúkraliða er hræðilegt. Þú ert jafnvel
ekki metin sem hjúkrunarkona. „Þú þarft að hreinsa, þvo og ....
gera allt þetta andstyggilega verk.“
„Kannski, en þetta er aðeins í eitt ár, og þetta er eitthvað, sem mig
langar til að gera.“ Og hún hafði gert þetta.
Valda hafði óljósa hugmynd um ævi vinkonu sinnar þessa tólf
mánuði. Glefsur úr flýtisbréfum komu með myndir af hvítmáluð-
um sjúkrahús-göngum, hjúkrunarkonum á spretti, hörðum yfir-
hjúkrunarkonum og rúmföstum sjúklingum. Hún fann það á sér,
að Nora lifði þar engu hóglífi. Hæfileiki hennar, að fara skakkt að
hlutunum, var ekki of vel umborinn í önnum köfnu sjúkrahúsi.
Er sjúkrahúss-vistinni lauk, hafði Nora farið í kennaraskóla til
tveggja ára náms, Valda fór heim að námi loknu, og síðan höfðu
þær varla sézt. Bréfum þeirra fækkaði stöðugt.