Eimreiðin - 01.10.1923, Page 39
£IMREIÐIN'
EITT VANDAM. N. T. SKÝR.
295
ekki verið annað en »hjátrú og hindurvitnic, eins og trúin á
útrekstur illu andanna er nefnd í bók síra Friðriks ]. Berg-
mann: Trú og þekking. Eg verð að nefna þá bók, því að
hún er eina bókin íslenska, mér vitanlega, sem heldur þessu
fram. Gerið yður þetta ljóst í alvöru: Annars vegar er því
haldið fram, að hann sé grundvöllur trúar vorrar og lífsskoð-
unar. í honum hafi Guð birst oss. Hann opinberi oss alt það,
er oss ríði mest á. Hann sé hinn eini meistarinn, eini sanni
leiðtoginn, ekki síst í öllu því, er varðar hinn ósýnilega heim
og eilífa lífið. Hann hafi veitt oss áreiðanlega fræðslu eigi að
eins um jarðneska hluti, heldur og himneska. Og nú snertir
kenning hans víða hinn ósýnilega heim, andaheiminn. Illu
andarnir eru ómótmælanlega einn hluti andaheimsins, og
vissulega verður þá eitt af því, er oss sýnist gagnlegt að vita,
hvort sá heimur hafi nokkur afskifti af oss. Ekki síst þetta:
Eru til illir andar, sem geta fengið vald á hugum manna,
skotið að þeim margs konar illum hugsunum og jafnvel gert
þá brjálaða?
fiins vegar er því haldið fram, að honum hafi algerlega
skjátlast: hann hafi ekki vitað hina eðlilegu orsök sjúkdóm-
anna, heldur hafi hjátrúarhugmyndir þátíðarinnar fylt huga
hans, svo að hann hafi ímyndað sér, að hann ætti í baráttu
við ósýnilegar verur. Og þessi skekkja í hugsunarhætti hans
snertir eigi að eins álit hans á geðveikinni, heldur kemur hún
við lífsskoðun hans og hugmyndum hans um alheiminn. Hann
fræðir lærisveina sína um hina illu anda (sjá Matt. 12), fær
þá til að trúa á tilveru þeirra og fær þeim vald til að lækna
menn, sem komist hafa undir vald þeirra. Þessa skoðun má
líka rekja um alt Nýja testamentið; hennar gætir t. d. jafnt í
bréfum Páls sem í Jóhannesar-ritunum.
Nú fæ eg ekki með nokkuru móti skilið, hvernig menn
fara í alvöru að halda því fram, að þessi mikla skekkja í
hugsunarhætti ]esú — sé það í raun og veru skekkja —
rýri ekki að neinu leyti traust vort á honum. Getur hann
verið oss sami andlegi leiðtoginn, sami guðdómlegi meistarinn,
þó að honum skjátlist svo stórlega? Ef ekkert er hæft í
skoðunum hans um illu andana, er þá nokkuð satt í kenning-
um hans t. d. um englana eða yfirleitt um himneska hluti og