Morgunn - 01.06.1931, Page 54
-48
MORGUNN
úrslitum, er atburðirnir fengu, þá dylst ekki, að skiln-
ingur Jesú er afar öndverður við óskir og vonir læri-
sveinanna í hinum mikilsverðustu atriðum. Baráttan,
sem freistingarsagan sýnir, að farið hafi fram í huga
Jesú, ber þess vott, að hann tók frá öndverðu aðra
stefnu, en beinast lá við samkvæmt hugsunum þeim,
sem lágu í loftinu. Hefði hann siglt með því leiði, þá
hefði saga hans orðið nokkuð lík því, sem G. B. telur
hana hafa verið. En hún varð önnur.
Um skýringar sr. G. B. á þeim atbui'ðum, sem gjörð-
ust eftir komu Jesú til Jerúsalem, verður það helzt
sagt, að þær séu skáldskapur, sem reistur er á röngum
forsendum.
V.
Enda þótt eg hafi ekki nema lauslega drepið á
örfá atriði, sem bók sr. G. B. fjallar um, þá vona eg,
að ekki dyljist það tvent, sem eg hefði viljað sagt hafa
í sambandi við hana: niðurstaðan stenzt ekki, en höf-
undurinn á þakkir skilið fyrir að hafa gefið hana út.
Fyrst þær skoðanir, sem lýst er í bókinni, eru sannfær-
ing höfundarins, þá var sjálfsagt fyrir hann að láta þá
sannfæringu uppi. Það gefur þeim, sem mjög líta ann-
an veg á umræðuefnið, sérstakt tækifæri til þess að
rökstyðja sitt viðhorf, og enginn ætti að þurfa að tapa
neitt á viðræðunum. Mér fyrir mitt leyti finst eg t. d.
hafa grætt töluvert á að fylgjast með því, sem skrif-
að hefir verið á móti bókinni. Það hefir varpað nýju
ljósi yfir þá staðreynd, hve fátæklegar og lítt arðber-
andi þær skoðanir verða, sem menn tileinka sér, án þess
að hafa sjálfir nokkuð verulega hugsað um þær. Það er
bersýnilegt um suma þá menn, sem ritað hafa um bók
sr. Gunnars, að þeir hafa einskis annars átt kost en
að hrópa: Júdas! Fáheyrð ósvífni! o. s. frv., þegar þeir
hafa rekist á þetta, sem þeir höfðu ekki hugmynd um,
hverju þeir ættu að svara.