Uppeldi og menntun - 01.07.2012, Page 48
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(2) 201248
YngStU leikSkÓlabörnin: Samfélag í leik
Corsaro (2003) hefur í rannsóknum sínum á félagslegum samskiptum í jafningja-
hópum skoðað hvaða aðferðir börn á aldrinum þriggja til sex ára, sem hittast reglu-
lega, nota í þeim tilgangi að komast inn í leik hvert hjá öðru. Aðferðirnar flokkar hann
í þrennt: óyrt innganga (e. nonverbal entry) þar sem börnin nota líkamann til að gefa
í skyn fyrirætlun, þau hringsóla (e. encirclement) í kringum leiksvæðið og bjóða fram
hlut eða vísa í tengsl sín á milli (e. verbal reference to affiliation). Stambak og Verba
(1986) lýsa ferli sem börn nota til að komast að samkomulagi um merkingu í leik án
þess að nota orð. Í fyrstu setur barnið fram hugmynd sem leikfélaginn túlkar og bregst
við. Viðbrögðin kalla fram aðrar athafnir hjá barninu sem hóf ferlið og samskiptin
halda áfram um stund. Þannig deila börnin sameiginlegri túlkun og aðlaga og breyta
athöfnum sínum í samræmi við athafnir og túlkun leikfélagans. Alvestad (2010) skoð-
aði einnig aðferðir tveggja og þriggja ára leikskólabarna til að komast að samkomu-
lagi en kannaði um leið um hvað samningaumleitanir þeirra snerust. Í ljós kom að
börnin leituðu helst eftir að ná samkomulagi um tengsl sín á milli, um leikefni og um
innihald leiksins. Aðferðirnar voru ýmist tilfinningalegs eðlis eða miðuðu að því að
leysa vandamál. Auk þess var algengt að börnin notuðu kímni sem aðferð til þess að
komast að samkomulagi. Rannsóknin sýndi að börnum sem léku mest við önnur börn
og börnum sem þekktust vel tókst best upp í samningaumleitunum sín á milli. Kímni
kom einnig við sögu í rannsókn Loizou (2007) með ungum leikskólabörnum sem tóku
þátt í athöfnum sem byggðust á kímni og notuðu kímni til að stjórna og koma sjálfum
sér á framfæri í félagslegu samhengi.
Einnig hefur komið í ljós í rannsóknum Johansson (1999, 2007, 2009) að í sam-
skiptum sínum skapa ung börn merkingu sem tengist siðvitund þeirra. Niðurstöður
rannsókna hennar í sænskum og áströlskum leikskólum sýna að út frá sjónarhorni
barnanna hefur það gildi að „gera rétt“, þ.e. að hlýða reglum sem starfsmenn hafa sett,
en einnig að sýna umhyggju gagnvart öðrum, bæði fullorðnum og börnum. Gildið að
„gera rétt“ virðist vera samtvinnað þróun samhuglægni barnanna gagnvart lífinu í
leikskólanum og tengslunum sem byggð eru upp milli barna og fullorðinna.
Félagslegt samfélag ungra barna
Deild í leikskóla er samfélag þar sem börn og fullorðnir hittast og eru saman. Í dag-
legri umgengni og leik deila börnin upplifunum, tilfinningum og hlutum. Félagsleg
tengsl og vinátta barna byggist á því að þau hafi möguleika á að kynnast hvert öðru
(Howes, 1987). Börn eru fjölbreyttur hópur með ólíka færni til að eiga í samskiptum og
tengslum og koma með fyrri reynslu með sér inn í leikskólasamfélagið (Howes, 2011).
Í samskiptum sínum móta börn hugmyndir sínar um félagana og félagsleg tengsl
þróast smám saman þar sem börnin hafa áhrif og verða fyrir áhrifum af félögunum.
Strandell (1999) bendir á að aðferðir barna við að láta í ljós skoðun sína á því hverjir
eigi að leika saman og hvar leikurinn eigi að fara fram sé þáttur í félagslegri iðkun
þeirra í leikskólanum. Í yfirliti yfir rannsóknir á samskiptum barna innan félagahóps-
ins benda Skånfors, Löfdahl og Hägglund (2009) á að flestar rannsóknanna lýsi sam-
skiptum barna út frá hugtökunum að veita hlutdeild í og að útiloka frá þátttöku í leik
en síður því hvernig börn skapa tengsl sín á milli.